Ferðahegðun erlendra sumarferðamanna 2019
Sumarið 2019 var staðbundin könnun á ferðahegðun og neyslu erlendra ferðamanna framkvæmd á fjórum stöðum: á Akureyri, í Borgarnes, á Höfn og í Mývatnssveit.
Frá árinu 2013 hefur slík könnun verið framkvæmd á alls 14 stöðum víðsvegar um land. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar og hvenær spurningakönnunin hefur verið framkvæmd og eru rannsóknasvæði sumarsins 2019 einkennd með grænum textareitum.
Meðal helstu niðurstaðna sumarsins 2019 er að óháð heimsóknarsvæði voru erlendir ferðamenn fólk í fríi á ferð með fjölskyldu og vinum og þá helst á bílaleigubíl. Meðalaldur gesta á könnunarstöðunum fjórum var vel sambærilegur eða 42-46 ár. Niðurstöður gefa þó vísbendingar um að ferðavenjur og útgjöld erlendra sumargesta á þessum stöðum væru um margt ólík og lá helsti munurinn í tilgangi heimsóknar, dvalartíma, þjónustuframboði staðanna og neyslumynstri gesta.
Á Akureyri stóðu upp úr heimsóknir í Lystigarð, Akureyrarkirkju og á kaffihús bæjarins. Í Mývatnssveit nutu göngutúrar, Jarðböðin og útsýnisferðir mestra vinsælda. Á Höfn voru það veitingahúsaferðir og afslöppun en í Borgarnesi verslun, safnferðir og tækifæri til að rétta úr sér. Þessar niðurstöður ramma raunar inn það sem virðist vera helsti tilgangur heimsókna til þessara staða.
Dvalartími erlendra ferðamanna var stystur í Borgarnesi (9,2 klst.) en lengst dvöldu menn á Akureyri (24,6 klst.). Enginn þessara fjögurra staða reyndist hins vegar hafa verið helsta ástæða Íslandsferðar.
Ólík ferðahegðun endurspeglast í útgjöldum ferðamanna. Meðalútgjöld erlendra ferðamanna á sólarhring voru tvöfalt hærri á Akureyri (15.816 kr.) og í Mývatnssveit (15.174 kr.) heldur en í Borgarnesi (7.309 kr.) og útgjöld á Höfn (10.603 kr.) voru þar á milli. Þeir þættir sem mestu réðu varðandi útgjöld voru gisting og afþreying.
Ánægja með heimsókn reyndist alls staðar mikil, var hæst 99% á Akureyri og lægst 94% á Höfn. Á öllum stöðum komu fram fjölmargar jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og fegurð staðanna Töluverður breytileiki kom hins vegar fram á meðmælaskori. Í Mývatnssveit (+79) og á Akureyri (+78) var skorið vel yfir +75 viðmiðum sem sett voru í Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Meðmælaskorið var nokkuð lægra í Borgarnesi (+62) en umtalsvert lægst á Höfn (+30). Í Borgarnesi og á Höfn var það lítið framboð afþreyingar sem helst kom í veg fyrir meðmæli auk þess sem skortur á gistiframboði, hátt verðlag gistingar og lélegt ástand tjaldsvæðis drógu úr því að menn teldu sig geta mælt með Höfn sem áfangastað.
Ferðavenjukönnunin er hluti af umfangsmiklu verkefni sem tilheyrir reglulegri gagnasöfnun hins opinbera á ýmsum þáttum ferðaþjónustu og ferðamennsku á Íslandi. Könnunin var unnin af Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir Ferðamálastofu.
Hér að neðan má hlaða niður skýrslum fyrir hvern stað um sig:
• Akureyri
• Borgarnes
• Höfn
• Mývatnssveit
Niðurstöður frá 2018 má sjá hér
Niðurstöður áranna 2016 og 2017 má sjá hér
Skoða má niðurstöður kannana áranna 2013 – 2015 með því að smella hér