Frumkvöðlastarf og fjölskyldufyrirtæki í ferðaþjónustu (Touref) (2020-2024)
Frumkvöðlastarf gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu. Ný fyrirtæki stuðla að nýsköpun og fjölbreytni innan greinarinnar og skapa íbúum aukna tekjumöguleika. Mörg þeirra eru lítil, oft fjölskyldufyrirtæki, þar sem reksturinn byggist að mestu á framlagi fjölskyldumeðlima. Ótal tækifæri felast í slíkum fyrirtækjum en þau standa jafnframt fyrir ýmsum áskorunum sem mikilvægt er að rannsaka nánar.
Markmið rannsóknarhópsins var að efla þekkingu og skilning á frumkvöðlastarfi innan lítilla (fjölskyldu)fyrirtækja í ferðaþjónustu, þýðingu þess og eðli.
Atburðaskrá
- Rannsóknamiðstöð ferðamála var þátttakandi í þriggja ára (2020-2023) Erasmus+ rannsóknarverkefni um lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu á krísutímum.
- Árið 2024 kom út bókin Tourism Entrepreneurship: Knowledge and Challenges for a Sustainable Future hjá Springer Palgrave. Bókin fjallar um frumkvöðlastarf og tengsl þess við sjálfbæra þróun, merkingu og birtingarmyndir. Rauði þráðurinn er hlutverk þekkingar í að mæta áskorunum sem frumkvöðlar í ferðaþjónustu standa frammi fyrir og hvernig hún styður við sjálfbæra framtíð. Ritstjórar bókarinnar eru Desiderio J. García Almeida frá háskólanum í Las Palmas á Kanaríeyjum, Gunnar Þór Jóhannesson prófessor í ferðamálafræði við HÍ, Þórhallur Örn Guðlaugsson prófessor í viðskiptafræði við HÍ og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF. Auk inngangskafla inniheldur bókin tíu kafla skrifaða af fræðafólki frá ýmsum löndum, þar á meðal íslenskum fræðimönnum við Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
Desiderio J. García Almeida [dj.garcia@ulpgc.es] frá háskólanum í Las Palmas á Kanaríeyum stýrði hópnum.
Starfsmaður hópsins fyrir hönd RMF var Íris Hrund Halldórsdóttir.
Lista yfir meðlimi rannsóknahópsins má sjá hér