Kínverskir ferðamenn á Íslandi
Kínverskum ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum og hefur þessi markhópur burði til að verða mikilvægur hlekkur í íslenskri ferðaþjónustu í framtíðinni. Kínverskir ferðamenn koma frá nokkuð frábrugðnari menningarheimi en þeir markhópar sem hafa verið hvað mest áberandi hér á landi, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar, Bretar, Bandaríkjamenn og aðrir Norðurlandabúar og því mikilvægt að kanna hvernig þeir upplifa og nálgast Ísland sem áfangastað.
Markmiðið með þessari rannsókn var að öðlast innsýn í upplifun þeirra sem eru að þjónusta kínverska ferðamenn hér á landi. Hvað einkennir þarfir og áhuga þessa markhóps? Hvaða áskoranir og tækifæri liggja í að þjónusta kínverska ferðamenn sem sækja Ísland heim?
Tólf viðtöl voru tekin við leiðsögumenn, hótelstarfsmenn og aðra innan ferðaþjónustunnar sem þjónusta og eiga í samskiptum við kínverska ferðamenn í sínum störfum. Niðurstöður viðtalanna voru nýttar í skrif á bókarkafla fyrir bókina Asian Mobilities Consumption in a Changing Arctic sem RMF var boðið að taka þátt í. Young-Sook Lee (The Arctic University of Norway) ritstýrði bókinni sem gefin var út af Routledge í ársbyrjun 2022. Undirbúningur fyrir verkefnið hófst haustið 2019 en gagnaöflun fór fram sumarið 2020.
Auk bókarkaflans kom út skýrsla á íslensku vorið 2021 með niðurstöðum rannsóknarinnar.
Hægt er að lesa skýrsluna hér: Kínverskir ferðamenn á Íslandi: Upplifun og reynsla íslenskra ferðaþjónustuaðila.
Verkefnisstjóri var Vera Vilhjálmsdóttir (verav@rmf.is) en ásamt henni komu þær Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (RMF) og Rosemary Black (Charles Sturt University) að kaflaskrifum.