Verkefni - Talningar ferðamanna: dreifing eftir landssvæðum

Seljalandsfoss. Mynd: RÓ

Talningar ferðamanna:
dreifing eftir landssvæðum

Verkefnið Dreifing ferðamanna um landið á rætur að rekja til verkefnis sem styrkt var af Ferðamálastofu árið 2014.

Verkefnið byggist á aðferðafræði við að meta fjölda ferðamanna á áfangastöðum með því að telja bifreiðar sem þangað koma.

Með niðurstöðum þessara talninga er mögulegt að móta aðgerðir varðandi skipulag ferðaþjónustunnar á landsvísu, uppbyggingu innviða og þjónustu á hverjum áfangastað. 

Verkefnið var fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árin 2016-2017. Skýrsla með niðurstöðum ársins 2016: Dreifing ferðamanna um landið: Talningar ferðamanna á áfangastöðum. Þar er greint frá niðurstöðum um fjölda ferðamanna á 24 áfangastöðum víða um landið. Þar er einnig sýnt á korti hvernig ferðamenn sem koma til landsins í ágúst og október 2016 dreifðust um landið, metið eftir þeim áfangastöðum sem skýrslan greinir frá.

 

Dreifing ferðamanna - skýrsla 2017

Skýrsla með niðurstöðum ársins 2017: Dreifing ferðamanna um landið – Talningar ferðamanna á áfangastöðum út árið 2017. Í skýrslunni er greint frá því hvernig ferðamenn dreifast um landið, í febrúar, ágúst og október 2017 og hvernig dreifingin hefur breyst síðustu ár. Áfangastaðir í Mývatnssveit eru skoðaðir sérstaklega og bornir saman við talningar Vegagerðarinnar á þjóðveginum.

Fjöldi ferðafólks í tveimur fjarlægum sveitum frá höfuðborgarsvæðinu er síðan borinn saman, það er í Mývatnssveit og Skaftafellssýslum. Í lok skýrslunnar eru settar fram tölulegar niðurstöður fyrir 21 áfangastað ferðamanna.

 

Ritrýnd fræðigrein eftir Gyðu Þórhallsdóttur um aðferðafræði rannsóknarinnar birtist í ritinu Journal of Outdoor Recreation and Tourism í september 2017.

Umsjón: Dr. Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir [gth85@hi.is]