Styrkur til rannsóknar á akstursferðamennsku um fáfarnar slóðir

©Þórný Barðadóttir 2022
©Þórný Barðadóttir 2022

RMF hlaut á dögunum úthlutun úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til rannsóknar á umferð ferðamanna um dreifbýli Norðurlands. Rannsóknin, sem ber heitið Akstursferðamennska um fáfarnar slóðir, hverfist um hugtökin akstursferðamennska, ferðamannaleiðir og leiðahefð. Fræðileg forsenda rannsóknarinnar byggir á mikilvægi samgöngumannvirkja í uppbyggingu ferðaþjónustu og leiðahefð jafnt umferðar ferðamanna sem opinberra fjárfestinga í samgöngumálum. Rannsóknin beinis jafnframt að hlut markaðssettra ferðamannaleiða í aukinni dreifingu ferðamanna og gerð og ástandi vegakerfis í vali ferðamanna á ferðaleiðum.

Við framkvæmd rannsóknar verður beitt blönduðum rannsóknaraðferðum. Könnun og viðtöl verða gerð meðal ferðamanna auk þess sem framkvæmd verður innihaldsgreining á birtingum á samfélagsmiðlum.

Tilvik rannsóknar er Norðurstrandaleið sem er fyrsta markaðssetta ferðamannaleið landsins en rannsóknarsvæðin eru tvö dreifbýlissvæði leiðarinnar, Vatnsnes á norðvesturenda hennar og Melrakkaslétta á henni norðaustanverðri. Verkefnið nú er ákveðið framhald rannsóknar sem RMF vann árið 2023 með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar en sú beindist að hlutverki Vegagerðarinnar í uppbyggingu ferðamannastaða.  

Rannsóknin Akstursferðamennska um fáfarnar slóðir verður unnin sumar og haust 2024. Verkefnisstjóri er Þórný Barðadóttir.