Rannsókn á ferðamennsku á Þeistareykjum
Sumarið 2023 vann RMF að rannsókn á ferðamennsku á Þeistareykjum að beiðni Landsvirkjunar.
Markmiðið með verkefninu var tvíþætt: annars að afla gagna um viðhorf tiltekinna notendahópa til Þeistareykjasvæðisins nú þegar helstu virkjunar- og vegaframkvæmdum á svæðinu er lokið og hins vegar mæla umferð um svæðið. Rannsóknarverkefnið var unnið í anda fyrri rannsókna RMF á svæðinu árin 2008, 2012 og 2017.
Almennt má segja að Þeistareykir séu enn tiltölulega óþekktur áfangastaður. Þrátt fyrir að vegasamgöngur hafi stórbæst á undanförnum árum þá endurspeglast það ekki í umferð um svæðið.
Vísbendingar eru þó um það að ferðafólk sé í meira mæli að keyra í gegnum svæðið eftir að nýi vegurinn suður á Hólasand er kominn. Upplifun þess ferðafólks sem sækir svæðið heim er áfram mjög jákvæð og ferðamenn lýsa mikilli ánægju með heimsóknina og upplifðu staðinn sem náttúrulegan, aðgengilegan, fallegan og áhrifamikinn.
Viðtöl við hagaaðila sýndu skýrt að þeir sáu tækifæri í auknu aðgengi að svæðinu. Hugmyndir þeirra um frekari uppbyggingu Þeistareykja sem áfangastaðar fyrir ferðamenn voru fjölbreyttar en ákall var þar um að fyrst og fremst yrðu teknar ákvarðanir varðandi framtíðar uppbyggingu svæðisins áður en að aðsókn og umgengni yrði illviðráðanleg og skemmdir óafturkræfar. Margir binda vonir við væntanlegt deiliskipulag svæðisins og að það takist að búa til áhugaverðan áfangastað þar sem ferðaþjónustan getur þrifist samhliða virkjunarstarfsemi án þess að gengið sé á náttúru- og menningarauðlindir svæðisins. Margir viðmælenda kölluðu eftir virkari aðkomu Landsvirkjunar að innviðauppbyggingu á svæðinu. Töldu menn að það hlyti að vera hagsmunamál Landsvirkjunar að stýra fólki betur um virkjanasvæðið og vernda þannig eignir og ásýnd.
Verkefnisstjórn var í höndum Guðrúnar Þóru Gunnarsdóttur, Sigríður Kristín Jónasdóttir sá um framlagningu spurningakönnunarinnar og tók einnig þátt í viðtalsrannsókn ásamt Írisi Hrund Halldórsdóttur. Íris sá auk þess um úrvinnslu gagna og skýrsluskrif og Rögnvaldur Ólafsson sá um umferðartalningu og er hann höfundur þess hluta skýrslunnar sem snýr að henni.
Hægt er að nálgast skýrsluna með öllum helstu niðurstöðum HÉR.