Aldur, búseta og ferðatilhögun ræður miklu um athafnir farþega skemmtiferðaskipa
Aldur, búseta og ferðatilhögun ræður miklu um það hvernig farþegar taka ákvarðanir, hvort og þá hvar þeir leita sér upplýsinga, hvernig þeir haga ferðum sínum og hvaða athafnasemi verður fyrir valinu í viðkomu skipa á landi
Þetta er meðal þess sem lesa má í nýútkominni samantekt um niðurstöður könnunar sem framkvæmd var meðal farþega skemmtiferðaskipa við Akureyrarhöfn sumarið 2018.
Nefna má sem dæmi að tveir þriðjuhlutar svarenda á sjötugsaldri fóru í rútuferð frá Akureyri en einungis þriðjungur yngsta aldurshópsins. Þá fór innan við helmingur Evrópubúa í rútuferð út úr bænum á móti rúmlega tveimur þriðjuhlutum Norður Ameríkana og íbúa annarra heimsálfa.
Barnafjölskyldur fóru helst í hvalaskoðun en sú afþreying fékk annars hæsta svörun meðal yngsta aldurshópsins en lægsta meðal þess elsta. Þá höfðu Norður Ameríkanar fremur farið í hvalaskoðun en íbúar Evrópu og annarra heimsálfa.
Fáir höfðu nýtt aðra afþreyingu í landi en það voru þá helst barnafjölskyldur sem höfðu farið í hjólatúr, vinir, hópar og þeir sem voru einir á ferð fóru oftar en aðrir í reiðtúra, flúðasigling hafði eingöngu orðið fyrir valinu hjá örfáum pörum frá Norður Ameríku, meðan það voru eingöngu pör sem búa utan Norður Ameríku og Evrópu sem höfðu farið í golf í landlegunni á Akureyri.
Útgjaldahluti könnunarinnar sýndi að hver farþegi eyddi að meðaltali 10.746 krónum í viðkomunni á Akureyri.
Veigamesti einstaki útgjaldaliðurinn var skipulögð afþreying sem taldi 7.743 kr. eða um 70% af útgjöldum farþega. Hvað varðar aðra útgjaldaliði sýna niðurstöður að í landlegu á Akureyri hefur hver farþegi að jafnaði varið 942 kr. í minjagripi, 573 kr. í veitingar, 761 kr. í fatnað og matvöruverslun, 417 kr. í samgöngur og 84 kr. í heimsóknir á söfn, auk þess sem hver farþegi hefur að meðaltali varið 226 kr. fyrir óskilgreinda verslun.