Bók um vinnuafl í ferðaþjónustu á Norðurlöndum – Skrifað undir samning
Ný fræðibók um vinnuafl í ferðaþjónustu á Norðurlöndunum verður gefin út árið 2020. Bókin er unnin að frumkvæði rannsóknarhóps RMF um vinnuafl í ferðaþjónustu og eru ritstjórarnir fjórir allir meðlimir í hópnum.
Skrifað hefur verið undir samning við útgefandann Palgrave MacMillan (hluti af Springer Group) um útgáfu á bók sem ber heitið Tourism employment in Nordic Countries – Trends, Practices and Opportunities. Stefnt er að útgáfu bókarinnar seinnipart árs 2020. Bókin er gerð að frumkvæði rannsóknarhóps RMF um vinnuafl í ferðaþjónustu og eru ritstjórar bókarinnar allir meðlimir í hópnum. Þeir eru Gunnar Þór Jóhannesson, hjá Háskóla Íslands, Andreas Walmsley hjá háskólanum í Plymouth Englandi, Kajsa G. Åberg hjá sveitarfélaginu Västerbotten í Svíþjóð, Petra Blinnika hjá JAMK háskólanum í Finnlandi.
Markmið bókarinnar er að gefa yfirlit um aðkallandi mál er varða atvinnu í ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Þessi bók er fyrsta sinnar tegundar því málefni vinnuafls í ferðaþjónustu hafa ekki verið skoðuð áður út frá sjónarhorni Norðurlandanna. Dæmi um viðfangsefni einstakra kafla eru búferlaflutningar, atvinna ungs fólks, ábyrg ferðaþjónusta og atvinnumál og önnur málefni efst á baugi varðandi vinnuafl í ferðaþjónustu. Textinn á að höfða til fjölbreytts hóps lesenda, bæði innan fræðasamfélagsins og meðal þeirra sem vinna við stefnumótun ferðaþjónustunnar sem og annarra sem koma þessu málefni.