Brjótum við eggin sem gullgæsin verpir? spyr stjórnarformaður RMF
Umræða um áhrif Covid-19 á komu ferðamanna til Íslands í ár og tekjuhrun í greininni setti svip sinn á aðalfund Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, RMF, sem haldinn var í Eyjafjarðarsveit í vikunni.
Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnar RMF segir í ársskýrslu miðstöðvarinnar að mikilvægt sé að nota tækifærið til þess að búa Íslendinga undir að taka á móti gestum þannig að bæði þeir, þjóðin og landið njóti góðs af. "Ósjálfbær vöxtur sem undirstöðurnar standa ekki undir hrynur óhjákvæmilega. Notum tímann til að styrkja stoðirnar og stýrum svo vextinum af viti" segir Guðrún sem segir ennfremur að ef við gætum ekki að okkur, brjótum við eggin sem gullgæsin verpir.
Í ársskýrslunni bendir Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður RMF, á mikilvægi þess að stefnumótun og stýring stærstu útflutningsgreinar Íslands sé byggð á sem bestri þekkingu hverju sinni. Brýn þörf sé fyrir aukið fjármagn til úrvinnslu gagna og eflingar grunnrannsókna í greininni. „Öflugt nýsköpunar- og þróunarstarf mun gegna lykilhlutverki í endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu. Vonandi ber greininni og stjórnvöldum gæfa til þess að blása byr í rannsóknarseglin á komandi árum og gera okkur þannig betur kleift að takast á við áskoranir ferðaþjónustu framtíðarinnar.“
Ársskýrsluna má lesa hér.
Aðalfundurinn var haldinn mánudaginn 8. júní og var deginum varið í Eyjafjarðarsveit. Hófst hann á morgunverði og léttu spjalli á Kaffi Kú þar sem Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir sagði stjórn og starfsfólki RMF frá rekstri fyrirtækisins og framtíðarhorfum.
Á Lamb-Inn fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem sérfræðingar RMF kynntu helstu rannsóknir síðasta árs og fóru yfir nokkrar af niðurstöðum þeirra. Sú breyting varð á stjórn RMF að Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, tók sæti í stað Laufeyjar Haraldsdóttur.
Að fundi loknum sagði Jóhannes Geir Sigurgeirsson frá rekstri Lamb-Inn og bauð upp á skoðunarferð um gamla bæinn á Öngulsstöðum. Fundardeginum lauk með á heimsókn á Hælið – Setur um sögu berklanna þar sem forstöðukonan María Pálsdóttir tók á móti hópnum og sagði frá starfsseminni. Einnig hitti Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri hjá Akureyrarbæ hópinn og sagði frá starfsemi og hlutverki Akureyrarstofu.
RMF þakkar gestgjöfum í Eyjafjarðarsveit fyrir hlýlegar móttökur og fróðlegar frásagnir.