Ný skýrsla um hlutverk Vegagerðarinnar í uppbyggingu og þróun áfangastaða og ferðamannaleiða
Í dag gaf RMF út skýrslu um niðurstöður rannsóknar á hlutverki Vegagerðarinnar í uppbyggingu og þróun áfangastaða og ferðamannaleiða á Íslandi. Rannsóknin var unnin fyrir styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Skýrsluna má nálgast hér.
Markmið rannsóknarinnar var að draga fram það ferli sem hefur átt sér stað við þróun þriggja ferðamannaleiða Íslandi, en þær eru Eldfjallaleiðin, Vestfjarðaleiðin og Norðurstrandarleið. Kjarninn í þróun þessara ferðamannaleiða er vegakerfið sjálft, oft utan helstu alfaraleiða. Kannað var hvaða aðilar hafi komið að ákvörðunartöku, hvernig samtali milli hagaðila var háttað og hver upplifun þeirra var af því samtali. Áhersla var á hlutverk Vegagerðarinnar í vöruþróunarferli í samhengi ferðaþjónustunnar og hverjar helstu áskoranir og ávinningur ólíkra hagaðila eru við uppbyggingu og viðhald ferðamannaleiða og áfangastaða hér á landi.
Rannsóknin byggði á viðtölum við einstaklinga sem starfa hjá Vegagerðinni, hjá markaðsstofum landshlutanna og sveitarfélögum/samtökum sveitarfélaga og hafa innsýn í samband Vegagerðarinnar og ferðaþjónustu.
Rannsóknin leiddi í ljós að þróun ferðamannaleiðanna rímar við áherslur íslenskra stjórnvalda í ferðamálum til 2030. Allar leiðirnar voru áhersluverkefni í sóknaráætlunum landshlutanna og hluti af áfangastaðaáætlunum á hverju svæði. Mikil áhersla var lögð á vönduð vinnubrögð við leiðaþróun og á samvinnu og samráð ólíkra hagaaðila þar með talið ferðaþjónustufyrirtækja, sveitarfélaga, landeigenda og Vegagerðarinnar. Bætt vegaaðgengi út fyrir alfaraleið eykur líkur á verðmætasköpun fyrir ferðaþjónustu og samfélög í kring. Þetta rímar við stefnu Vegagerðarinnar sem og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um greiðar, öruggar og sjálfbærar samgöngur.
Viðmælendur rannsóknarinnar voru á einu máli um það að Vegagerðin ætti að vera einn af lykilaðilum til samráðs og samvinnu um málefni ferðaþjónustunnar og ætti stofnunin að vera skýrt skilgreind sem hagaðili í ferðaþjónustu. Fjölmörg verkefni uppbyggingar innviða og þróunar áfanga- og áningarstaða innan landshlutanna væri ekki hægt að leysa án aðkomu Vegagerðarinnar. Fulltrúar ferðaþjónustunnar og sveitarfélaga kölluðu skýrt eftir auknum skilningi gagnvart þörf á úrlausnum í samgöngumálum fyrir ferðaþjónustuna. Að mati margra viðmælenda samræmist forgangsröðun Vegagerðarinnar ekki þörfum ferðaþjónustunnar og hafi málum, sem fulltrúar ferðaþjónustunnar og sveitarfélaga hafa borið fram í samgöngumálum, oftar en ekki lokið með neitun frá Vegagerðinni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að Vegagerðinni er sniðinn þröngur stakkur til að bregðast við þeim áskorunum sem ferðaþjónustunni hafa fylgt og til að fylgja samtali hagaðila eftir með nauðsynlegum aðgerðum sem styðja við uppbyggingu hennar og sjálfbærni. Ítrekað var bent á að Vegagerðina skorti fjárheimildir til aðgerða og að gildandi verklag stofnunarinnar og regluverk hafi ekki dugað til að takast á við þær breytingar sem ferðaþjónustunni hafa fylgt. Gagnrýnt var að hlutverk Vegagerðarinnar í samhengi ferðaþjónustu sé ekki nægilega skýrt og að stofnunin hafi of lítið rými til kerfisbreytinga og til að aðlaga verkferla betur að þörfum ferðaþjónustu. Fyrir vikið væri erfitt fyrir alla aðila að starfa að þeim sjálfbærnismarkmiðum sem stjórnvöld hafa sett í ferðaþjónustu og samgöngumálum. Eining var um að þörf væri á sameiginlegri nálgun til að efla skilning á þörfum og áskorununum atvinnugreinarinnar. Vegagerðin þurfi því aukið svigrúm til þess að taka hlutverk sitt sem hagaaðili í ferðaþjónustu fastari tökum.
Að mati þátttakenda rannsóknarinnar stendur skortur á formlegum farvegi fyrir samtal hagaðila um ferðaþjónustu og samgöngumál ferðaþjónustunni fyrir þrifum. Skýrt ákall var um að koma á fót samráðsvettvangi til að ræða um ferðaþjónustu og samgöngumál á breiðum grunni. Samtalið um skipulag á landsvísu þurfi að fara fram á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar og hafa pólitískan stuðning til að Vegagerðin geti tekið öflugan þátt í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á grundvelli sjálfbærni.