Tvær lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi verðlaunaðar
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu á dögunum tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi. Elva Dögg Pálsdóttir og Sólveig Hulda Árnadóttir hlutu verðlaun fyrir BA-ritgerð sína í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og Íris Sigurðardóttir hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í stjórnun og stefnumótun, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Tilkynnt var um verðlaunahafa á aðalfundi SAF sem fram fór með rafrænum hætti þann 6. maí en verðlaunin voru afhent í 15. sinn.
BA-ritgerð Elvu og Sólveigar nefnist Beint flug Super Break til Akureyrar. Væntingar farþega og upplifun. Leiðbeinandi var Anna Vilborg Einarsdóttir lektor í ferðamálfræðideild Háskólans á Hólum. Ritgerðin fjallaði um áskoranir í uppbyggingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og viðhorf og væntingar ferðamanna í beinu flugi norður. Elva og Sólveig könnuðu hugmyndir um aðgengi, aðdráttarafl og aðstöðu á eftirsóknarverðum áfangastöðum með hliðsjón af upplifunum og væntingum ferðamanna. Greindu þær áskoranir ferðaþjónustu á Norðurlandi við uppbyggingu utan háannar í takti við sameiginlegar áherslur ferðaþjónustunnar og hins opinberra um betri dreifingu ferðamanna um landið. Beint flug ferðaskrifstofunnar Super Break var liður í uppbyggingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og tilraun til fjölgunar ferðamanna á svæðinu. Spurningakönnun var lögð fyrir ferðamenn sem komu til Akureyrar á vegum Super Break á tímabilinu janúar – mars 2019. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að væntingum langflestra ferðamanna var mætt og voru svarendur sammála um að beint flug væri mikilvægt ef þeir hyggðu á endurkomu. Á grunni niðurstaðna álykta höfundar að beint flug Super Break hafi skilað tilætluðum árangri um betri nýtingu innviða ferðaþjónustunnar utan háannar og ánægðum ferðamönnum
MS-ritgerð Írisar nefnist Samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu: Samþætting samfélagsábyrgðar við kjarnastarfsemi íslenskra fyrirtækja. Leiðbeinandi var Margrét Sigrún Sigurðardóttir lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í ritgerðinni var kannað hvar íslensk ferðaþjónustufyrirtæki staðsetja samfélagsábyrgð í viðskiptalíkani sínu, hvernig fyrirtækin innleiða þætti samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi sína og hvaða þættir hafa áhrif á þá framvindu. Einkum voru könnuð þau fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig til að leggja áherslu á samfélagsábyrgð hjá Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð og hafa sýnilega stefnu um samfélagslega ábyrgð og eða umhverfismál. Tekin voru viðtöl við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi sem jafnframt fylltu út viðskiptalíkan fyrirtækjanna til að sýna hvar þeirra stefna um samfélagsábyrgð liggur. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikill munur hafi verið á því hvernig stefnur voru tvinnaðar inn í viðskiptalíkan fyrirtækjanna. Þau fyrirtæki sem höfðu hugsað viðskiptalíkanið sitt frá upphafi út frá hugmyndum um samfélagsábyrgð, ábyrgrar ferðaþjónustu eða sjálfbærni töldu það ekki vera kostnaðarsamt að vera ábyrgt ferðaþjónustufyrirtæki. Þau töldu sig einnig hafa samkeppnisforskot á aðra ferðaþjónustuaðila þar sem ferðamenn velji frekar ábyrg fyrirtæki fram yfir önnur ef verðmunur er ekki til staðar. Þau fyrirtæki sem höfðu frekar litið á umhverfisvernd sem hliðarverkefni í starfseminni voru líklegri til að segja að aukin ábyrgð fyrirtækja væri kostnaðarsöm og að líklegra væri að samfélagsábyrgðinni yrði ekki sinnt ef rekstur fyrirtækisins þyngdist.
María Guðmundsdóttir fræðslustjóri SAF, dr. Rannveig Ólafsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF sátu í dómnefndinni.
Tilnefningar til lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2020
- „A good first job?" Migrant workers in Icelandic hotels
Höfundur: Margrét Wendt, MS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Gunnar Þór Jóhannesson og Unnur Dís Skaptadóttir - Beint flug Super Break til Akureyrar. Væntingar farþega og upplifun
Höfundar: Elva Dögg Pálsdóttir og Sólveig Hulda Árnadóttir, BA-gráða í ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Anna Vilborg Einarsdóttir - Employee motivation and satisfaction practices – the case of Iceland
Höfundur: Paulína Neshybová, MS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Magnús Haukur Ásgeirsson og Brynjar Þór Þorsteinsson - „Í verstu tilfellum kíkja ferðamenn á glugga“: Viðhorf íbúa Mývatnssveitar til ferðamennsku og áhrif hennar á lífsgæði þeirra
Höfundur: Hulda María Þorláksdóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Edda R.H. Waage og Ásdís Aðalbjörg Arnalds - Líkaminn, hugurinn og allt hitt: Upplifun ferðamanna í skipulagðri jöklagöngu
Höfundur: Bjartur Snorrason, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbenandi: Edda R.H. Waage - Notkun samfélagsmiðla og notendaskapaðs efnis í ferðaþjónustu á Vestfjörðum
Höfundur: Andrea Gylfadóttir, BS-gráða í viðskiptafræði, Háskólinn á Akureyri
Leiðbeinandi: Grétar Þór Eyþórsson - Samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu: Samþætting samfélagsábyrgðar við kjarnastarfsemi íslenskra fyrirtækja
Höfundur: Íris Sigurðardóttir, MS-gráða í stjórnun og stefnumótun, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Margrét Sigrún Sigurðardóttir - Should I post this one?‘ An ethnography on social media‘s effect on the tourist gaze
Höfundur: Viðja Jónasdóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund - "Víkin mín" Áhrif ferðaþjónustu og ferðamanna á staðarkennd heimamanna
Höfundur: Ágústa Rós Ingibjörnsdóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund - Ægifegurð eldfjalla: Áhættuupplifun ferðamanna á Laugaveginum vegna eldgosavár
Höfundur: Þórhildur Heimisdóttir, MS-gráða í landfræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Anna Dóra Sæþórsdóttir og Guðrún Gísladóttir - Örskilaboð á íslenskan pappírsfána: Upplifun ferðamanna og þátttaka í íslenskum gjörningi
Höfundur: Bryndís Jóhanna Jóhannesdóttir, MA-gráða í menningarstjórnun, Háskólinn á Bifröst
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund