Viðhorf heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu 2018
Í dag komu út skýrslur með niðurstöðum kannana á viðhorfum heimfólks til ferðamanna og ferðaþjónustu á fjórum áfangastöðum, Reykjanesbæ, Stykkishólmi, Húsavík og Egilsstöðum. Kannaðar voru bæði sértækar og staðbundnar áskoranir sem fylgja uppbyggingu ferðaþjónustu og móttöku ferðamanna á þessum stöðum.
Skýrslurnar í heild má nálgast hér að neðan:
Egilsstaðir
Húsavík
Stykkishólmur
Reykjanesbær
Eykur fjölbreytileika mannlífs og atvinnulífs
Niðurstöður staðfesta að ferðamennskan hefur mikil áhrif á samfélag heimamanna en áhrifin eru nátengd staðbundnum einkennum hvers staðar. Heilt yfir var jákvæðni heimamanna nokkuð afgerandi og voru flestir þeirrar skoðunar að ferðamennska hefði bæði bætt lífsgæði og lífskjör í samfélaginu. Einhugur var um efnahagslegt mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir samfélögin og að ferðaþjónusta hafi bæði verið atvinnuskapandi og ýtt undir fjölbreytni í atvinnulífi. Á öllum stöðum hafði þjónustustig haldist hátt að mati heimamanna. Á öllum stöðunum kom fram að ferðaþjónusta hefði haft neikvæð áhrif á leigumarkað.
Niðurstöður eftir svæðum
Jákvæðustu og neikvæðustu hliðar ferðaþjónustunnar tengd lífsgæðum íbúa og innviðum voru þessar helstar:
Jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar lutu öll að því að bæta samfélag og lífskjör heimamanna. Á yfirborðinu virðast þessar jákvæðu hliðar vera svipaðar alls staðar en samhengi þeirra er bundið hverjum stað fyrir sig og fær fyrst þá þýðingu.
- Á Húsavík voru aukið mannlíf, atvinnusköpun og fjölbreytileiki tiltekin sem jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar. Þar höfðu hvalaskoðunarfyrirtækin margþætta þýðingu fyrir samfélagið og voru íbúar á því að áhrifin væru jafnvel enn meiri enn menn gerðu sér grein fyrir. Einkum var mönnum tíðrætt um hátt þjónustustig þrátt fyrir íbúafækkun.
- Í Stykkishólmi lögðu menn áherslu á fjölbreyttara mannlíf og aukna atvinnu enda var hrun í hörpuskelfiskveiðum og afleiðingar þess fólki ofarlega í huga.
- Í Reykjanesbæ var aukin atvinna, atvinnusköpun og auknar tekjur efst á blaði. Samfélagið þar hefur glímt við erfiðar áskoranir í atvinnulífi auk hraðrar íbúafjölgunar og lék enginn vafi á þýðingu ferðaþjónustu fyrir atvinnulífið.
- Á Egilsstöðum var hátt þjónustustig samnefnari fyrir helstu styrkleika ferðamennskunnar í bænum og fyrir búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna.
Neikvæðar afleiðingar ferðaþjónustunnar voru einnig áþekkar milli staða en þó ákveðinn staðbundinn munur.
- Á Húsavík voru það umferð, umgengni ferðamanna og aðstæður sem skertu lífsgæði íbúa. Í svörum Húsvíkinga var vísað til aðstæðna þar sem þeir voru jaðarsettir og komust ekki að s.s. lengri biðtími í umferð og matvöruverslun og húsnæðismál. Húsvíkingar einblíndu jafnframt á skipulagsmál í bænum þar sem stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir að standa ekki undir væntingum heimamanna um móttöku ferðamanna.
- Í Stykkishólmi var átroðningur, umferðarþungi og Airbnb neikvæðustu þættirnir í huga íbúa. Var þar vísað til skerðingar á lífsgæðum og aðstæðna þar sem íbúar komast ekki að í sínu daglega umhverfi, langoftast tengt útleigu á húsnæði til ferðamanna og erfiðleikum á fasteignamarkaði.
- Í Reykjanesbæ tengdust neikvæðustu hliðarnar umferð, umferðarþunga og skorti á tjaldstæði fyrir ferðamenn. Vísað var til mikillar umferðar á Reykjanesbraut og skorts/umbótum á innviðum, þ.m.t. á vegakerfi og aðstöðu fyrir ferðamenn. Þar voru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að standa sig ekki í að bjóða ferðamönnum viðunandi aðstöðu um landið.
- Á Egilsstöðum voru umferð,sóðaskapur og umferðarmenning neikvæðust. Vísaði það til skerðingar á lífsgæðum sem oftast tengdist tilfinningu um umferðaröryggi og aðstæðum þar sem íbúar voru jaðarsettir s.s. tómar hillur verslana og Airbnb.
Um könnunina
Könnunin er hluti af opinberri gagnasöfnun og greiningu á félagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélag heimamanna en kannanir á viðhorfum heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku hafa farið fram með reglubundnum hætti frá árinu 2016. Ferðamennska og ferðaþjónusta geta haft margvísleg menningarleg og félagsleg áhrif á samfélag heimamanna – sem aftur getur hefur áhrif á viðhorf fólks til atvinnugreinarinnar. Í könnuninni er þetta samspil skoðað ýmist á landsvísu eða í einstökum bæjarfélögum, og tengist markmiði stjórnvalda að hugað verði að því að tryggja áfram jákvætt viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu (Vegvísir í ferðaþjónustu 2015). Könnun hefur ýmist farið fram á landsvísu eða skoðað einstök bæjarfélög.
Rannsóknamiðstöð ferðamála vann rannsóknina fyrir hönd hins opinbera. Könnunin var tvíþætt. Annars vegar var gerð símakönnun meðal úrtaks í búa á svæðunum. Úrtakið var 3.700 manns og fengust 1.480 svör. Hins vegar voru tekin 24 viðtöl við íbúa á svæðunum til að fá innsýn í upplifun íbúa af ferðamönnum og ferðaþjónustu í þeirra umhverfi.
Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá RMF framkvæmdi rannsóknina.