Vinnuafl í ferðaþjónustu
Samhliða mikilli aukningu í komum ferðamanna hingað til lands hefur störfum í ferðaþjónustu fjölgað svo um munar.
Árið 2018 störfuðu um 33 þúsund manns í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar, þar af hátt í þriðjungur starfsfólk með erlent ríkisfang. Þessi mikla aukning starfa og aukinn fjölbreytileiki starfsfólksins hefur leitt til nýrra áskoranna fyrir stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu og fyrir stjórnun og stýringu greinarinnar.
Lítið hefur farið fyrir málefnum vinnuaflsins undanfarin misseri í umræðu um ferðaþjónustuna og afleiðingar hennar á land og þjóð.
Til að sporna við þessu er ein af áherslum sem settar eru fram í Vegvísi ferðaþjónustunnar 2015-2020 að auka starfsánægju í ferðaþjónustu á Íslandi.
Takmörkuð þekking er fyrir hendi á vinnumarkaði íslenskrar ferðaþjónustu, fáar rannsóknir hafa verið gerðar á málefnum vinnuafls í ferðaþjónustu og litlar upplýsingar eru til um þá sem starfa í atvinnugreininni hér á landi.
Í nýrri skýrslu RMF er helstu rannsóknum á sviði vinnuafls í ferðaþjónustu og starfsánægju í greininni gerð skil ásamt því að varpa betra ljósi á þann hóp sem starfar í ferðaþjónustu á Íslandi.