Aðalfundur stjórnar RMF haldinn í Hrísey
Aðalfundur RMF var haldinn miðvikudaginn 31. maí í Hrísey. Stjórn og starfsfólk RMF hóf daginn yfir morgunverði með Eyjólfi Guðmundssyni rektor Háskólans á Akureyri þar sem hlutverk háskólanna og efling rannsókna í ferðamálum var til umræðu. Að því loknu hitti hópurinn Pétur Ólafsson, hafnarstjóra Hafnarsamlags Norðurlands og formann Cruise Iceland og ræddi um stöðu og áskoranir við komur skemmtiferðaskipa á Akureyri.
Um miðdegisbil sigldi hópurinn frá Árskógssandi til Hríseyjar. Þar tók Linda María Ásgeirsdóttir á móti hópnum með hádegisverði í Verbúðinni 66 og kynnti Ferðamálafélag Hríseyjar og stöðu ferðaþjónustunnar á eyjunni. Að því loknu var komið að sjálfum aðalfundinum sem var með hefðbundnu sniði. Ársskýrsla RMF 2022 var kynnt á fundinum, hana má finna hér á vefnum.
Á aðalfundinum urðu breytingar í stjórn. Þórhallur Örn Guðlaugsson, prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands, tók við af Ástu Dís Óladóttur sem formaður stjórnar RMF. Þá tók Anna Karlsdóttir lektor í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði við sæti Rannveigar Ólafsdóttur. Bæði Anna og Þórhallur eru skipuð í stjórn RMF af rektor Háskóla Íslands.
Ásamt stjórn sátu fundinn Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðukona RMF, Ása Marta Sveinsdóttir, Eyrún Jenný Bjarnadóttir og Vera Vilhjálmsdóttir, sérfræðingar RMF.
Að loknum aðalfundi kynntu nemendur úr Hríseyjarskóla afrakstur vinnu sinnar í Erasmus+ verkefni um eyjaskóla. Markmið verkefnisins er tengja saman litla eyjaskóla um alla Evrópu og finna í sameiningu leiðir til nýsköpunar, leita lausna á vandamálum eyjasamfélaga og skapa um leið spennandi námstækifæri. Sjálfbær ferðaþjónusta í eyjasamfélögum hefur verið eitt af viðfangsefnum verkefnisins og var hápunktur þeirrar vinnu heimsókn í grunnskólann De Jutter á hollensku eyjunni Vlieland í byrjun maí, sjá nánar um ferðina hér. Að lokinni kynningu buðu nemendurnir gestum í stutt rölt með leiðsögn um þorpið í veðurblíðunni.
Áður en leiðir skildu snæddi hópurinn góðan kvöldverð á Skógi Bistro í Skógarböðunum í Eyjafjarðarsveit og naut leiðsagnar Sigríðar Maríu Hammer, eins eigendanna, um böðin.
Myndirnar sem hér fylgja tóku Eyrún Bjarnadóttir, Vera Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Við þökkum nemendum Hríseyjarskóla, Hríseyingum og öðrum, sem við áttum góðar stundir með í ferðinni, fyrir hlýlegar móttökur og gestrisni.