Aðkoma RMF að gerð ferðaþjónustureikninga fyrir Hagstofu Íslands
Út eru komnir ferðaþjónustureikningar á vegum Hagstofu Íslands fyrir árin 2009 til og með 2013 sem ætlað er að meta áhrif ferðaþjónustu á íslenskan efnahag á þessum árum. Dr. Cristi Frent, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, vann reikningana með tilliti til alþjóðlegra staðla í ferðamálatölfræði og ferðaþjónustureikningum.
Aðkoma RMF að gerð þessara reikninga á sér nokkurn aðdraganda. Á fjárlögum fyrir árið 2012 ákvað mennta- og menningarmálaráðuneytið að bæta framlag sitt til RMF um 30 milljónir króna. Talið var að um fjárveitingu til þriggja ára væri að ræða og á grundvelli hennar lögð drög að fjórum þriggja ára verkefnum sem RMF myndi fjármagna. Eitt þeirra var rýni á hagtölugerð fyrir íslenska ferðaþjónustu, en hagsmunaðilar greinarinnar hafa löngum kallað eftir ítarlegu mati á efnahagslegum umsvifum greinarinnar. Þegar þetta verkefni fór í gang uppúr miðju ári 2012 voru bestu fyrirliggjandi gögn um þetta efni ferðaþjónustureikningar Hagstofu Íslands fyrir árið 2009. Ákveðið var að leggjast yfir þessa reikninga. Til verksins fékkst dr. Cristi Frent, sem þá hafði starfað við George Washington háskólann í Bandaríkjunum og rýnt ferðaþjónustureikninga Bandaríkjanna og sérhæft sig í þeim alþjóðlegu stöðlum sem miðað er við.
Á tveimur árum gaf RMF út tvær ítarlegar skýrslur um efni og aðferðir þessara hliðarreikinga og kom með 56 ábendingar um hvernig mætti betur aðlaga þá alþjóðlegum stöðlum. Þessar skýrslur má finna hér og hér. Á sama tíma hafði Hagstofa Íslands hug á að breyta verklagi við hagtölugerð á Íslandi og færa sig í átt að sk. fyrirtækjatölfræði í samræmi við staðla EES samnings og sem hagstofur Evrópu vinna nú eftir (sjá hér). Þar hefði ferðaþjónusta verið með öðrum greinum íslensks efnahagslífs í nýrri deild helguð fyrirtækjum í landinu. Til að fjármagna þessar breytingar og uppbyggingu hafði Hagstofa Íslands fengið sk. IPA styrki, en vorið 2013 voru þeir dregnir til baka (sjá hér). Eftir stóð Hagstofa Íslands, búin að leysa upp fyrri starfsemi við gerð ferðaþjónustureikninga og ekki á leið í fyrirtækjatölfræði í bráð. Á sama tíma eru kröfur hagsmunaaðila í ferðaþjónustu vaxandi um uppfærðar tölur um umsvif greinarinnar enda hún í miklum vexti og vont að framreikna aðeins tölur frá 2009. Samtök ferðaþjónustunnar ásamt fleirum börðust því fyrir því að gerðir yrðu nýjir ferðaþjónustureikningar. Í apríl 2014 samþykkir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sérstakt aukaframlag til Hagstofu Íslands til að standa undir gerð þeirra (sjá hér). Á þeim tímapunti var rýni RMF að ljúka og Hagstofan snéri sér því til RMF og dr. Cristi Frent um hvort mögulegt væri að hann gæti gert lykiltöflur reikninganna. Samningur var gerður þar að lútandi. Vinnu við töflurnar lauk nú í ágúst. Dr. Frent mun kynna aðferðir og niðurstöður á opnum fundi á vegum Hagstofu Íslands og RMF, 5. október nk. Þær munu einnig verða útlistaðar í ítarlegri skýrslu sem verður gefin út með öðrum skýrslum RMF ársins 2015 snemma á næsta ári.