Doktorsvörn í ferðamálafræði: Edita Tverijonaitė

Edita Tverijonaitė
Edita Tverijonaitė

Þann 19. desember sl. varði Edita Tverijonaitė doktorsritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Edita er annar nemandinn í röðinni til að útskrifast með doktorspróf í ferðamálafræði við íslenskan háskóla.

Ritgerðin ber heitið Náttúruferðamennska í landslagi endurnýjanlegrar orku: Viðhorf hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar. Samfara aukinni uppbyggingu mannvirkja til framleiðslu endurnýjanlegrar orku og vaxandi náttúruferðamennsku aukast líkur á árekstrum á milli þessara greina. Til að stuðla að sjálfbærri þróun beggja greina er mikilvægt að afla aukinnar þekkingar á flóknu samhengi á milli greinanna og er það meginmarkmið ritgerðarinnar. Nánar má lesa um verkefnið á vefsíðu Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi Editu var dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, aðrir í doktorsnefnd voru dr. Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Dr. C. Michael Hall, prófessor við University of Canterbury, Nýja Sjálandi.

Andmælendur við vörnina voru dr. Bohumil Frantál, fræðimaður við Palacký University, Tékklandi og Dr. Marianna Strzelecka, dósent við Linnaeus University, Svíþjóð.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks RMF færði Rannveig Ólafsdóttir Editu blómvönd að lokinni athöfn. 

Rannveig Ólafsdóttir afhenti Editu blóm frá stjórn og starfsfólki RMF / Mynd: Anna Dóra Sæþórsdóttir

 

Stjórn og starfsfólk Rannsóknamiðstöðvar ferðamála óskar Editu Tverijonaitė innilega til hamingju með doktorsritgerðina.