Doktorsvörn í ferðamálafræði: Elva Björg Einarsdóttir
Þann 4. desember sl. varði Elva Björg Einarsdóttir doktorsritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Elva er fjórði nemandinn sem útskrifast með doktorspróf í ferðamálafræði frá íslenskum háskóla.
Doktorsritgerð Elvu Bjargar ber titilinn Hugsað með staðarmyndun í V-Barð á Íslandi (Thinking with placemaking in V-Barð, Iceland). Í ritgerðinni er fjallað um það hvernig staðir eru hreyfanlegir og verðandi í tengslum fólks og náttúru. Ásýnd og ímynd staða á jaðrinum hefur þó gjarnan verið tengd við stöðun og einsleitni. Í rannsókn sinni, þar sem rannsóknarsvæðið var Barðaströnd, sýnir Elva fram á hvernig staðir á jaðrinum eru engu síður síkvikir, marglaga og óreiðukenndir en staðir á þéttbýlli svæðum.
Nánar má lesa um verkefnið á vef Háskóla Íslands.
Leiðbeinendur Elvu Bjargar voru dr. Gunnar Þór Jóhannesson og dr. Katrín Anna Lund sem bæði eru prófessorar við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ásamt þeim í doktorsnefnd var dr. Outi Rantala, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi.
Andmælendur við doktorsvörn Elvu Bjargar voru dr. Phillip Vannini, prófessor við Deild samskipta og menningar, við Royal Roads University, Kanada og dr. Jundan Jasmine Zhang, sérfræðingur hjá Miðstöð fyrir náttúrutúlkun, Swedish University of Agricultural Sciences, Svíþjóð
Fyrir hönd RMF færði Þórný Barðadóttir Elvu Björgu blómvönd að lokinni athöfn.