Dómar um nýja bók um ferðamál
Í nýútkomnu hefti fræðiritsins Tímarit um Stjórnmál og Stjórnsýslu er að finna rýni ferðamálastjóra á nýútkominni bók Ferðamál á Íslandi (sjá hér) eftir forstöðumann RMF, Edward H. Huijbens og Gunnar Þór Jóhannesson, lektor við líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritdóm ferðamálastjóra má lesa hér, en niðurstaðan er:
Niðurstaðan er því ritverk sem er höfundum sínum til sóma. Hér er borin á borð metnaðarfull og ákaflega áhugaverð lesning um ferðamál fyrir lesendur sem hafa einhverja innsýn í atvinnugreinina, vilja kynnast henni frekar og hafa gaman af því að lesa slíka texta með gagnrýna hugsun að vopni.
---
Aðra rýni er að finna hér af vef félags leiðsögumanna. Sú rýni varð tilefni svars sem finna má hér.
---
Bókin var í lok janúar ein 10 bóka tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2013.
Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir árlega viðurkenningu til framúrskarandi fræði- eða kennslurits. Viðurkenningin telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem höfundum fræðilegra rita fyrir skóla og almenning hér á landi getur hlotnast og nemur verðlaunaupphæðin einni miljón króna.
Viðurkenningaráð, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, stendur að valinu. Það skipa: Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur.
Í umsögn ráðsins um Ferðamál á Íslandi segir: Tímabært undirstöðurit um ferðamál og þarft innlegg í umræðu um einn af helstu atvinnuvegum þjóðarinnar.
Önnur verk sem tilnefnd voru er hægt að sjá hér á síðu Hagþenkis, en þau eru:
- Aðalsteinn Ingólfsson Karólína Lárusdóttir (JPV).
- Guðbjörg Kristjánsdóttir Íslenska teiknibókin (Crymogea).
- Guðný Hallgrímsdóttir Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu (Háskólaútgáfan).
- Halldór Björn Runólfsson og Ingimar Waage Listasaga - Frá hellalist til 1900 (Námsgagnastofnun).
- Hjörleifur Stefánsson Af jörðu. Íslensk torfhús (Crymogea).
- Inga Lára Baldvinsdóttir Sigfús Eymundsson myndasmiður. Frumkvöðull íslenskrar ljósmyndunar (Þjóðminjasafn Íslands).
- Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson, Bjarni Bessason (ritstjórar) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar (Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan).
- Sigrún Pálsdóttir Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (JPV).
- Þorleifur Friðriksson Dagar vinnu og vona. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í kreppu og köldu stríði (Háskólaútgáfan).