Afþreying er framtíðin - MA ritgerð
Á dögunum varði Jóhanna Ásgeirsdóttir ritgerð sína til meistaraprófs frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands í ferðamálafræði. Jóhanna vann undir leiðsögn Magnúsar Hauks Ásgeirssonar, aðjunkts við HÍ og Lilju Berglindar Rögnvaldsdóttur, Háskólasetri HÍ á Húsavík.
Meginviðfangsefni ritgerðarinnar var afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi. Meðal þess sem Jóhanna rannsakaði voru tengsl milli dvalarlengdar erlendra gesta og útgjalda vegna afþreyingar sumarið 2015 á fjórum rannsóknarsvæðum á Íslandi.
Verkefnið grundvallaðist á gögnum Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um ferðavenjur erlendra gesta á Siglufirði, Húsavík, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit.
Samanburður var gerður á milli rannsóknarsvæðanna og niðurstöður greininganna sýndu að útgjöld erlendra gesta til afþreyingar voru hæst á Húsavík og lægst á Siglufirði. Marktæk tengsl voru á milli útgjalda til afþreyingar og dvalartíma ferðamanna á svæðunum.
Rannsóknamiðstöð ferðamála þakkar Jóhönnu fyrir samstarfið og hvetur fleiri nemendur til að kynna sér möguleika á að nýta gagnagrunna RMF til lokaverkefna.