Ferðamannalandið Ísland: Nýr veruleiki eftir Hrun

Nýverið stóðu Land og ferðamálafræðistofa Háskóla Íslands og RMF sameiginlega fyrir málstofu um tengsl Hrunsins við ferðamannalandið Ísland. Fjögur erindi voru flutt í málstofunni þar sem sjónum var beint að breytingum á stöðu ferðaþjónustunnar sem fékk í kjölfar Hrunsins áður óþekkta athygli sem ein megin uppspretta erlends gjaldeyris fyrir þjóðarbúið. Fjallað var um upplifun fólks af vaxandi ferðamennsku árin eftir Hrun, þá einkum eftir Eyjafjallajökulsgosið og nýjan veruleika ferðamála eins og hann birtist í dag með öllum þeim áskorunum og möguleikum sem í honum býr. Málstofustjórn var í höndum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sérfræðings á skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

 

Tengsl náttúru og ferðalaga

Fyrsta erindi málstofunnar bar yfirskriftina Í auga stormsins og var flutt af Dr. Gunnþóru Ólafsdóttur forstöðukonu rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu. Í upphafi erindisins fjallaði Gunnþóra um niðurstöður þolmarkarannsókna á Íslandi en þær gefa ákveðnar vísbendingar um stöðuna á nokkrum af fjölförnustu ferðamannastöðum landsins. Fram kom að allt að 30-55% ferðamanna á Íslandi taka eftir skemmdum á náttúrunni á vinsælum ferðamannastöðum bæði á hálendi og láglendi. Einnig kom fram að stór hluti ferðamanna sem heimsóttu Ísland að sumri virðist vera komin yfir eigin þolmörk fyrir fjölda annarra ferðamanna á stöðunum. Almennt eru viðhorf ferðamanna neikvæðari á vinsælum ferðamannastöðum á Gullna hringnum/Geysi og Jökulsárlóni þar sem ferðamannafjöldinn er mestur. Viðhorf ferðamanna eru í takt við aðdráttarafl náttúrunnar fyrir útivist og ferðamennsku, þar sem menn sækjast m.a. eftir dvöl í ósnortinni náttúru, fámenni og kyrrð. Í erindinu setti Gunnþóra aðdráttarafl náttúrunnar fyrir ferðamennsku og útivist í sögulegt samhengi og hvernig það á rót að rekja til þarfar fyrir að komast burt úr daglegu amstri út í náttúruna og sókn í vellíðunaráhrifin sem því fylgir. Jafnframt ræddi hún hvernig vellíðunaráhrif af dvöl í náttúrunni (e. nature restoration) eru skýrð sállífeðlisfræðilega m.a. sem streitulosun. Að lokum fjallaði Gunnþóra stuttlega hvernig hægt er að taka tillit til þessara gilda í skipulagsvinnu og uppbyggingu ferðamannastaða sem þörf er á að fara í vítt og breitt um landið.

 

Ofgnótt ferðamennsku (e. overtourism) dregur athygli frá raunverulegum vanda

Næst flutti Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands erindi sem bar yfirskriftina Blessað Hrunið! Um veruleika ferðamála. Gunnar Þór fjallaði um þær breytingar sem urðu á stöðu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar í kjölfar efnahagshrunsins. Þrátt fyrir langa sögu tilrauna til stefnumótunar ferðaþjónustu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar hafði greinin notið lítillar athygli stjórnvalda nema sem kreppuráð þegar frumvinnslugreinar áttu tímabundið undir högg að sækja. Strax eftir Hrun komst ferðaþjónustan í kastljósið sem sú atvinnugrein sem gæti vaxið og skapað nauðsynlegar gjaldeyristekjur. Stjórnvöld lögðu þá m.a. áherslu á að fá eins marga ferðamenn og mögulegt var til landsins og fljótlega fór aðgengi að fjármagni til uppbyggingar afþreyingar fyrir ferðamenn batnandi. Í erindinu rakti Gunnar Þór þrenns konar veruleika sem hafa verið ríkjandi frá tíma Hrunsins og tengjast og birtast í umræðu og aðgerðum jafnt opinberra sem einkaaðila. Í fyrsta lagi um veruleika ferðaþjónustunnar sem frumvinnslugrein, sem endurspeglaðist í áherslu á að fá sem flesta gesti til landsins. Í öðru lagi um veruleika Gullgrafaraæðisins sem vísar til þess að fjölmargir hófu starfsemi í ferðaþjónustu með skammtímagróða í huga. Í þriðja lagi um ástand ofgnóttar (e. overtourism) sem hefði verið áberandi stef í opinberri umræðu um ferðamál upp á síðkastið. Lagði Gunnar Þór áherslu á að mikilvægt væri að komast út úr hugsun um ferðaþjónustu sem framleiðsluiðnað og að huga þyrfti að langtímamarkmiðum. Þá gagnrýndi hann hugmyndina um ofgnótt ferðaþjónustu og sagði að janvel þótt hún dragi athygli að raunverulegum vandamálum væri hugmyndin gagnslítil til að takast á við vandamálin. Það væri vitað mál að náttúrlegt umhverfi er takmörkuð auðlind og að félagslegt samneyti við annað fólk geti falið í sér áskoranir. Hins vegar þurfi að greina hvar vandamálin eru til staðar og vinna úr þeim í takt við samhengi á hverjum stað. Til þess þurfi að huga vel að nokkrum þáttum; fjárfestingu í menntun og rannsóknum, hönnun og skipulagi áfangastaða og að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir um stýringu og skipulag ferðamála með hagsmuni samfélagsins, frekar en einstakra fyrirtækja, að leiðarljósi.

 

Hraður vöxtur ferðamennsku leiddi ekki til neikvæðara viðhorfa landsmanna

Næsta erindi nefndist Er allt í klandri í ferðamannalandi?, flutt af Eyrúnu Jennýju Bjarnadóttur sérfræðingi hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála. Í erindinu fjallaði Eyrún um breytingar í landslagi ferðamála frá Hruni sem m.a. voru knúnar fram af hraðri fjölgun ferðamanna. Ferðaþjónusta á Íslandi tók að vaxa mitt í alþjóðlegri kreppu og reyndist Ísland vera eitt fárra landa í Evrópu sem upplifði vöxt í ferðaþjónustu árið 2009. Upp úr 2012, þegar ferðamönnum fjölgaði mjög hratt, tók umræða um álag af atvinnugreininni að aukast – ekki aðeins um álag á náttúru landsins heldur einnig á ýmsa innviði almannaþjónustunnar og á samfélag heimamanna. Fram að því hafði það síðastnefnda lítið verið rætt í íslensku samhengi. Engu að síður eru viðhorf heimamanna meðal lykilþátta í sjálfbærni áfangastaða og þekkt er að stuðningur íbúa geti dvínað þegar ferðaþjónusta er farin að skerða daglegt líf. Í máli Eyrúnar kom fram að rannsóknir RMF á viðhorfum landsmanna sem gerðar voru árin 2014 og 2017 benda til þess viðhorf landsmanna til ferðamanna og ferðaþjónustu séu almennt jákvæð. Viðhorf landsmanna til fjölda ferðamanna hafa ekki breyst í takti við raunfjölgun á sama tímabili. Of mikil eða hröð fjölgun ferðamanna hefur heldur ekki sjálfkrafa leitt til neikvæðra upplifana á fjöldanum enda voru jákvæð viðhorf mjög áberandi í niðurstöðunum. Hins vegar benti Eyrún á að neikvæðustu viðhorfin hefði verið að finna meðal þeirra landsmanna sem telja fjölda ferðamanna vera of mikinn. Ekki væri um stóran hóp að ræða og hann hefði í raun minnkað milli kannana en hlusta þyrfti vel á þennan hóp. Í lokin tók Eyrún fram að þrátt fyrir jákvæðar vísbendingar mætti ekki gleyma að viðhorf eru flókin og marbreytileg, bæði milli svæða og innan þeirra. Þá væru svæði og samfélög misvel í stakk búin til að takast á við uppgang ferðaþjónustunnar og því sé nauðsynlegt að fylgjast líka vel með stöðunni, ekki aðeins á landsvísu heldur einnig innan einstakra samfélaga.

 

Fleiri erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu í viðkvæmri stöðu

Lokaerindi málstofunnar fluttu Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við Háskóla Ísland og Íris H. Halldórsdóttir, aðjúnkt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála. Í erindinu, sem bar yfirskriftina Erlent vinnuafl til bjargar? – í vexti ferðaþjónustu og byggða, var gerð grein fyrir því hvar á landinu og í hvaða greinum ferðaþjónustunnar erlent starfsfólk hefði verið að finna frá árinu 2008. Á síðasta ári var fjórðungur starfsfólks í ferðaþjónustu erlendir ríkisborgarar eða rúmlega sjö þúsund manns að jafnaði og hafði þeim fjölgað um meira en fimm þúsund frá 2009. Um 57% störfuðu á höfuðborgarsvæðinu, en utan þess var mestur fjöldi á Suðurlandi (925) og Suðurnesjum (721), þar sem mikil aukning hefur orðið síðustu ár. Langflestir erlendir launþegar störfuðu í gistingu (43%) og veitingastarfsemi (33%). Magnfríður og Íris greindu frá niðurstöðum úr viðtalsrannsókn um sýn svæðisbundinna verkalýðsfélaga á Suðurlandi, Reykjanesi og Vestfjörðum, á hvað megi betur gera til að tryggja kjör og viðunandi aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu.

Í rannsókninni kom fram að mál sem snúa að erlendu starfsfólki í ferðaþjónustu taka orðið mestan tíma verkalýðsfélaga, bæði vinnustaðaheimsóknir og aðstoð við fólk sem leitar leiðréttinga á launum eftir að hafa hætt störfum. Að mati verkalýðsfélaganna er þessi hópur starfsmanna í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þar sem vinna og húsnæði er oft samtengt og fólk lendir á götunni ef það missir vinnuna. Að lokum kom fram að samhliða mikilli fjölgun ferðaþjónustufyrirtækja hafi yfirvöld ekki náð að sinna eftirliti með kjörum og aðstæðum starfsfólks fyrirtækja sem í auknum mæli ráða til sín erlent starfsfólk. 

 

Málstofan var hluti af ráðstefnunni Hrunið, þið munið! sem haldin 5.-6. október í Háskóla Íslands. Tilefni ráðstefnunnar var að áratugur er liðinn frá efnahagshruninu. Á dagskrá voru um 100 fyrirlestrar í rúmlega 20 málstofum sem fjölluðu um aðdraganda og afleiðingar hruns íslenska bankakerfisins haustið 2008 og víðtæk áhrif þess í íslensku samfélagi.