Ferðaþjónusta, fólk og vernduð svæði í víðáttu heimskautanna

Heimskautsgerðið
Mynd: ruv.is
Heimskautsgerðið
Mynd: ruv.is

Alþjóðleg ráðstefna um ferðamálarannsóknir á norðurslóðum

Dagana 29. ágúst - 2. september mun Rannsóknamiðstöð ferðamála standa fyrir ráðstefnu um ferðamál, í samstarfi við Samtök um ferðamálarannsóknir á heimskautasvæðum (International Polar Tourism Research Network - IPTRN). Ráðstefnan er haldin á Akureyri og á Raufarhöfn. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Ferðaþjónusta, fólk og vernduð svæði í víðáttu heimskautanna“. Þetta er í fimmta sinn sem IPTRN-samtökin halda ráðstefnu af þessu tagi en hún hefur ekki áður verið haldin hér á landi.


Mánudaginn 29. ágúst eru á dagskrá auk fyrirlestra, opnar pallborðsumræður í Háskólanum á Akureyri en nánari upplýsingar um þær má sjá hér.


Þriðjudaginn 30. ágúst mun ráðstefnan flytjast til Raufarhafnar þar sem á dagskránni verða fyrirlestrar, vettvangsferðir og sérstakar vinnustofur með heimamönnum. Á ráðstefnunni er rík áhersla lögð á samtal við heimamenn, sem munu kynna sínar hugmyndir um framtíðaráfangastaði sem og þróunar- og nýsköpunarverkefni í ferðaþjónustu á svæðinu. Á Raufarhöfn fá bæði ráðstefnugestir og heimamenn tækifæri til þess að miðla reynslu og varpa ljósi á raunveruleg viðfangsefni sem og þær áskoranir, sem strjálbýl svæði á norðurslóðum standa frammi fyrir við þróun ferðamennsku.

Undirbúningur ráðstefnunnar er unninn í nánu samstarfi við heimamenn á Raufarhöfn m.a. Norðurhjara - ferðaþjónustusamtök, Rannsóknastöðina Rif og verkefnið Raufarhöfn og framtíðin. Um 50 manns frá rúmlega 10 þjóðlöndum eru skráðir til þátttöku, en skráningu lauk 1. júlí sl.

 

International Polar Tourism Research NetworkIPTRN-samtökin voru formlega stofnuð fyrir 8 árum. Innan samtakanna eru helstu sérfræðingar heimsins á sviði ferðamálarannsókna á heimskautasvæðum, þar á meðal vísindamenn, ferðaþjónustuaðilar, ráðgjafar og fulltrúar opinberra stofnana. Flestir sérfræðinganna starfa í Kanada en auk þess eru í samtökunum sérfræðingar frá Norðurlöndunum, Nýja-Sjálandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum svo fátt eitt sé nefnt. IPTRN-samtökin leggja mikla áherslu á þekkingarsköpun og á miðlun þekkingar og mismunandi sjónarmiða um þróun ferðamennsku á heimskautasvæðum.


Vef ráðstefnunnar má sjá hér en nánari upplýsingar veitir Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála gegnum ejb@hi.is eða s. 525-4459 eða 849-6733