Ferðavenjur erlendra gesta: Þjóðarspegillinn 2017
Á nýafstöðunum Þjóðarspegli hélt Lilja Rögnvaldsdóttir erindi um ferðavenjur erlendra ferðamanna sumarið 2016.
Kynntar voru niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir erlenda gesti á Seyðisfirði, Egilsstöðum, Stykkishólmi, Ísafirði, Húsavík og Mývatnssveit.
Þar kom m.a. fram að útgjöld erlendra gesta voru ólík eftir svæðum. Meðalútgjöld á sólarhring mældust lægst á Seyðisfirði en hæst á Húsavík þar sem hvalaskoðun var veigamikill útgjaldaliður. Náttúran var helsta ástæða gesta fyrir heimsókn í Mývatnssveit á meðan hvalir löðuðu langflesta gesti til Húsavíkur.
Hlutfall gesta sem komu með skemmtiferðaskipum var hæst á Ísafirði og hlutfall næturgesta hæst á Seyðisfirði.
Spurningakönnunin hefur nú verið lögð fyrir á ellefu áfangastöðum landsins, fyrst sumarið 2013.
Verkefnið er samstarfsverkefni RMF og Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík. Skýrsla með niðurstöðunum er væntanleg í desember.