Fréttir - 2003-2005
Ágúst 2005
Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða
Þriðjudaginn 30. ágúst, kl. 16.15 í stofu 101 Odda, hélt Annette Pritchard prófessor við háskólann í Cardiff Wales fyrirlesturinn "Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða" ("Tourism and Gendered Discourses. The Importance of Locating Gender Issues at the Heart of Tourism Education") á vegum ferðamálafræði Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.
Dr. Annette Pritchard er forstöðumaður Welsh Centre for Tourism Research við háskólann í Cardiff, og gestaprófessor við New Zealand Tourism Research Institute. Hún hefur bakgrunn úr félagsvísindum, fjölmiðlafræði og félagsfræði ásamt alþjóðastjórnmálafræði. Eftir hana liggja um 100 bækur og greinar í alþjóðlegum tímaritum um ímyndir, markaðssetningu í ferðamennsku og kynjafræði, um kyngervi og um stjórnmál ferðamála. Dr. Annette Pritchard er aðalfyrirlesari á heimsfundi menningarmálaráðherra úr röðum kvenna sem er haldinn í Reykjavík 29. og 30. ágúst á vegum Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders).
Síðustu bækur Dr. Annette Pritchard eru:
Tourism promotion and power: creating images, creating identities (1998), Power and Politics at the seaside (1999), Tourism and Leisure Advertising (2000), Destination Branding (2002), í vinnslu eru - The Critical Turn in Tourism Studies (kemur út 2005), og Gender, Sexuality and Embodiment: Advances in Tourism Research (kemur út 2006).
Júní 2005
Rannsókn á náttúrulegum baðlaugum: hluta Ferðamálaseturs lokið. Skýrslan á pdf form
Ferðaþjónustu- og matvælaklasi héldu sameiginlegan fund um ímynd og vörumerki þann 10. júní.
Fluttir voru mjög góðir fyrirlestrar um ímynd og vörumerki auk þess sem verkefnið "matarkistan Skagafjörður" var kynnt. Það verkefni miðar að því að þróa matarferðamennsku í héraði og þótti það vel við hæfi að kynna það á þessum fundi. Í máli Laufeyjar Haraldsdóttur verkefnisstjóra kom fram að verkefnið hefur farið vel af stað í Skagafirði og eru veitingamenn þar sammála um að matur sem kynntur er á matseðli sem matur úr héraði seljist gríðarlega vel sérstaklega meðal útlendinga.
Ársæll Harðarson yfirmaður markaðssviðs Ferðamálaráðs tók næst til máls of fjallaði um ímynd Íslands. Sagði hann m.a. að við mótun ímyndar væri nauðsynlegt að greina kjarnakosti (core competance). Þeir væru tveir hvað varðar Ísland, ósnortin náttúra og menningararfurinn. Samkeppnisforskot Íslands sé aðgengi og víðátta ásamt þjóðgörðunum.
Sue Mizera hjá Young & Rubicam í Sviss sagði m.a. frá þremur verkefnum þar sem landsvæði hafa verið að byggja upp ímynd og vörumerki. Lagði hún mikla áherslu á samvinnu á sem breiðustum vettvangi ef ná ætti árangri í slíkri vinnu.
Síðastur tók til máls Kristinn Tryggvi Gunnarsson hjá IMG. Sagði hann m.a. að mikilvægt væri að greina sína sérstöðu og vinna síðan samstíga að sama marki.
Í framhaldinu ræddu fundargestir um það sem fram kom í fyrirlestrunum og hvernig við á þessu svæði getum nýtt okkur það. Munu klasastjórar vinna í málinu áfram og móta næstu skref.
Apríl 2005
Ráðstefna um stjórnun þjónustugæða
Þann 28. apríl næstkomandi verður ráðstefna um stjórnun þjónustugæða haldin í stofu L201 í Háskólanum á Akureyri. Ráðstefnan er haldin af Ferðamálasetri Íslands og Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri og er öllum opin.
Málþing um sögutengda ferðaþjónustu
Kristín Sóley, sérfræðingur FMSÍ, heldur erindi um Gásir í Eyjafirði á málþingi þann 8. apríl næstkomandi kl. 14-18. Málþingið verður haldið í Duushúsum í Reykjanesbæ og er því ætlað að varpa ljósi á þá miklu grósku sem einkennir sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Einkum verður fjallað um ferðaþjónustu sem byggir á Íslendingasögunum og tímabilinu fram til 1300.
Málþingið er opið fyrir alla og aðgangur er ókeypis.
Á dagskránni verður m.a. fjallað um Evrópuverkefnið Destination Viking Sagalands; Víkingaskipið Íslending, Eiríksstaði og Leifsverkefnið og Þjórsárdal. Auk þess verða eftirtalin verkefni kynnt: Gásir við Eyjafjörð, Landnámssetur í Borgarnesi, Sögumiðstöð og sagnamennska í Grundarfirði og Landnámsskálinn í Aðalstræti. Að lokum mun Andri Snær Magnason, rithöfundur, koma með nokkrar pælingar um Ísland og sögutengda ferðaþjónustu.
Mars 2005
Ferðamálasetrinu barst eftirfarandi fréttatilkynning:
Dagana 15. – 16. apríl nk. verður haldin ráðstefna á Ísafirði sem ber yfirskriftina “Náttúra Vestfjarða og ferðamennska”. Þeir sem standa að þessari ráðstefnu eru: Ferðamálasamtök Vestfjarða, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Náttúrustofa Vestfjarða.
Eins og nafn ráðstefnunnar gefur til kynna verður þema hennar náttúra Vestfjarða og hvernig hægt sé að tengja hana ferðamennskunni á svæðinu þannig að hagsmunir ferðaþjónustuaðila og ferðamanna fari saman. Markmið ráðstefnunnar er að leitast við að svara mjög sértækum spurningum um náttúru og ferðamennsku, s.s. hvaða náttúrufyrirbæri eru á Vestfjörðum, hvar eru þau, hverjir vilja skoða þau, hvenær og hvað má það kosta.
Um er að ræða tveggja daga ráðstefnu, frá hádegi á föstudegi og fram til kl. 16 á laugardegi. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum og munu fjalla um þetta málefni út frá mörgum sjónarhornum. Fyrirlestrarnir ná yfir allt sviðið, s.s. ferðaþjónusta, ferðamennska, markaðssetning menning svæðisins, náttúruvísindi, rannsóknir, öryggi ferðamanna, aðgengi inn á svæðið og innan þess.
Opnuð hefur verið heimasíða ráðstefnunnar og er slóðin www.nave.is/ferdaradstefna/
Þar eru allar upplýsingar um ráðstefnuna að finna og einnig er hægt að skrá sig þar. Allar nýjar upplýsingar verða færðar inn á heimasíðuna jafnóðum og þær berast. Að auki veitir verkefnisstjóri, Anna Guðrún Edvardsdóttir, upplýsingar í síma 456 7207, GSM 864 0332 og netfang: arun@nave.is.
Málstofa Viðskiptadeildar
Þann 4. mars verður sérfræðingur Ferðamálaseturs Íslands, Bergþóra Aradóttir, með málstofu. Hún er haldin á vegum Viðskiptadeildar HA. Þar mun Bergþóra fjalla um þróun ferðamannastaða í óbyggðum og byggir hún erindi sitt m.a. á skýrslum um þolmörk ferðamennsku á ferðamannastöðunum Landmannalaugum og Lónsöræfum. Hefst málstofan kl. 12:10 og eru allir velkomnir.
Febrúar 2005
Stjórnunarhættir íslenskra fyrirtækja
Helgi Gestsson forstöðumaður Ferðamálaseturs hefur undanfarið unnið að könnun um stjórnunarhætti íslenskra fyrirtækja. Samstarfsaðilar hans eru Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor við Viðskiptadeild HA og Ólafur Jakobsson lektor við sömu deild. Nýlega kynntu þeir frumniðurstöður rannsóknarinnar þar sem fram kom m.a. að stjórnunarhættir fyrirtækja á landsbyggðinni eru að mörgu leyti nútímalegri en fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu verður gerð sambærileg könnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja og verður spennandi að sjá niðurstöður hennar.
Janúar 2005
Styrkur frá Rannsóknarsjóði HA
Kristínu Sóleyju Björnsdóttur starfsmanni Ferðamálaseturs Íslands hefur verið úthlutað styrk að upphæð 900.000 krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Var hann veittur í hið metnaðarfulla verkefni „Menning og ferðaþjónusta á Norðurlandi 1. áfangi-Eyjafjörður“. Samstarfsaðili Kristínar Sóleyjar er Guðrún Helgadóttir kennari og sérfræðingur á ferðamálabraut Hólaskóla . Áður hafði verkefnið hlotið styrk úr Háskólasjóði KEA en ekki síður er mikilsverður stuðningur menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið hefur bent á mikilvægi slíkra rannsókna og kemur það m.a. fram í skýrslu fyrrverandi menntamálaráðherra Tómasar Inga Olrich, Menningartengd ferðaþjónusta (2001).
Verkefnið fór af stað fyrir nokkru en áherslan er lögð á að kanna tengsl menningar og ferðaþjónustu í Eyjafirði. Auk þess á að draga fram og greina menningarleg sérkenni svæðisins frá sjónarmiði gesta og gestgjafa. Jafnframt verða könnuð áhrif menningarferðaþjónustu á menningarstarf og framboð menningar á svæðinu.
Verkefnið er þríþætt; Í fyrsta lagi eru viðhorf og væntingar ferðamanna, innlendra sem erlendra, kannaðar með spurningakönnun sem dreift er í Eyjafirði. Í öðru lagi eru viðhorf og væntingar gestgjafanna, þ.e. rekstaraðila í menningarstarfi og í menningatengdri ferðaþjónustu kannaðar með ítarlegum viðtölum. Í þriðja lagi er gerð úttekt á ímynd Eyjafjarðar sem áfangastaðar eins og hún birtist í kynningarefni fyrir ferðafólk. Reynt verður að svara spurningum á borð við:
- Hvert er megin aðdráttarafl menningar og menningarlegra sérkenna á Eyjafjarðarsvæðinu?
- Hverjar eru væntingar ferðafólks til menningartengdrar ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu?
- Hver er upplifun ferðafólks af menningartengdri ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu?
- Hvernig höfða menningarstofnanir og rekstaraðilar menningartengdrar ferðaþjónustu til innlendra og erlendra ferðamanna?
- Hefur menningartengd ferðaþjónusta áhrif á framboð menningar og starf menningarstofnana?
Desember 2004
Styrkur frá Byggðastofnun
Ferðamálasetri Íslands hefur verið úthlutaður styrkur að upphæð 1.700.000 krónur frá Byggðastofnun. Var hann veittur í verkefnið „Hagræn áhrif ferðaþjónustu“. Áður hafði verkefnið hlotið styrki úr Háskólasjóði KEA og Rannsóknarsjóði HA.
Verkefnið fór af stað að frumkvæði Bergþóru Aradóttur sérfræðings Ferðamálaseturs. Fengnir voru til samstarfs aðilar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Þá hafa bæði SAF og Ferðamálaráð sýnt verkefninu áhuga og velvilja. Miðar verkefnið að því að kanna bein hagræn áhrif ferðaþjónustu á byggðarlag og meta þau útfrá sölutekjum ferðaþjónustufyrirtækja, launagreiðslur þeirra og ársverk. Akureyri er notaður sem rannsóknarvettvangur nú en aðferðafræðin sem þróuð verður mun síðan nýtast fyrir hvaða byggðarlag sem er. Framkvæmd var spurningakönnun sl. sumar sem eins konar forkönnun en styrkurinn mun fleyta verkefninu áfram og er áætlað að ákveðnum áföngum ljúki á næsta ári.
Kynning á Ferðamálasetri
Kynningarblað útskriftarnema Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri fylgdi Morgunblaðinu 1. desember. Þar er m.a. Ferðamálasetur Íslands með heilsíðu-kynningu á sinni starfsemi. Það var Ingi Gunnar Jóhannsson sem tók þessa fallegu ljósmynd sem birt er með umfjölluninni og er hún birt með leyfi Ferðamálaráðs Íslands.
Nóvember 2004
14th Nordic Symposium in tourism and Hospitality research
Á þrettándu ráðstefnu (13th) Nordic Symposium in Tourism and Hospitality Research sem haldin var í Álaborg í Danmörku í nóvember sl. var tilkynnt að Ferðamálasetur Íslands stæði fyrir fjórtándu ráðstefnu (14th) samtakanna á Akureyri haustið 2005. Efni þeirrar ráðstefnu verður: Tourism resources nature - culture – society. Þetta er stór alþjóðleg ráðstefna þar sem kynntar eru rannsóknir í ferðamálum á Norðurlöndum. Er auglýst eftir handritum meðal rannsakenda og þeirra sem vinna að ferðamálum og þeim síðan boðið að flytja erindi í fjölmörgum málstofum sem verða á ráðstefnunni.
Nánar auglýst síðar.
Október 2004
Ferðamálasetur í nýtt húsnæði
Með tilkomu nýja rannsóknarhússins komst Ferðamálasetrið í nýtt og varanlegt húsnæði. Húsið, sem staðsett er við húsnæði Háskólans á Akureyri á Sólborg, er glæsilegt og hýsir fjölmargar stofnanir auk þess sem Háskólinn nýtir stóran hluta þess fyrir sína starfsemi. Ferðamálasetrið er staðsett í sama rými og Rannsóknarstofnun H.A. og felast í því margir möguleikar til samstarfs þar sem starfsemi stofnananna er um margt lík. Föstudaginn 22. október verður nýja rannsóknarhúsið formlega vígt og þá mun Ferðamálasetrið ásamt öðrum „íbúum“ hússins kynna starfsemi sína.
September 2004
Nýjar rannsóknir sumarið 2004
Tvær nýjar rannsóknir hófust nú í sumar. Önnur lýtur að náttúrulegum baðlaugum og er unnin í samstarfi við Háskólasetrið í Hveragerði, Ferðamálaráð Íslands og Prokaria ehf. Er verkefnið m.a. styrkt af Byggðastofnun. Leitast var við að rannsaka eiginleika íslenskra náttúrulauga í efna- og erfðafræðilegu samhengi. Slíkar laugar hafa lengi verið tengd ímynd Íslands sem ferðamannaland og verið hluti af uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu. Samhliða því var rætt við heimamenn og viðhorf þeirra könnuð til nýtingar lauganna. Auk þess var safnað upplýsingum um allar sundlaugar á landinu sem opnar eru almenningi til þess að auka gildi upplýsinganna fyrir hinn almenna ferðamann. Áætlað er að birta upplýsingarnar sem safnast á heimasíðum.
Hin rannsóknin beinist að beinum hagrænum áhrifum ferðaþjónustu á Akureyri. Er verkefnið unnið í samstarfi við hagfræðinga. Reynt verður að fá svör við þremur megin spurningum: Hverjar eru sölutekjur fyrirtækja í ferðaþjónustu? Hverjar eru launagreiðslur fyrirtækja í ferðaþjónustu? Hversu mörg eru ársverk fyrirtækja í ferðaþjónustu? Fyrsta hluta rannsóknarinnar er nú lokið en hún fólst í spurningakönnun sem lögð var fyrir viðskiptavini ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja. Áætlað er að verkefninu ljúki fyrri part næsta árs. Fengist hafa styrkir til þessa verkefnis frá Háskólasjóði KEA og Rannsóknarsjóði HA.
Breytingar hjá Ferðamálasetri
Arnar Már Ólafsson sem verið hefur forstöðumaður Ferðamálaseturs frá stofnun þess hefur frá septembermánuði 2004, fengið leyfi frá störfum í eitt ár. Helgi Gestsson lektor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri leysir hann af. Þá kemur Kristín Sóley Björnsdóttir aftur til starfa í október eftir barnseignarleyfi undanfarna mánuði. Starfsmenn setursins verða þá tveir í fullu starfi auk forstöðumanns í hlutastarfi.
Maí 2004
Málþing um hagræn áhrif ferðaþjónustu
Ferðamálasetur Íslands efnir til málþings undir yfirskriftinni Hagræn áhrif ferðaþjónustu. Málþingið verður haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands, miðvikudaginn 12. maí. kl: 13:30-17:00. Þar verða margir frummælendur sem fjalla um málefnið frá ýmsum hliðum. Meðal þeirra er prófessor Tom Baum sem er forstöðumaður ferðamáladeildar The University of Strathclyde. Í lokin verða svo fyrirspurnir og umræður, sjá dagskrá. Aðgangur er opinn öllum. Skráning fer fram hjá - Ferðamálasetri Íslands, s: 463-0959, tölvupóstur: arnar@unak.is
Apríl 2004
Námskeiðum að ljúka
Ferðamálasamtök Íslands hefur staðið fyrir námskeiðum á 14 stöðum víða um land nú í vor og er þeim að ljúka nú (23. apríl). Hefur Ferðamálasetur Íslands ásamt fleiri aðilum unnið að þeim. Námskeiðin voru haldin fyrir rekstraraðila í ferðaþjónustu, sveitastjórnarmenn og aðra sem áhuga hafa á rekstri ferðaþjónustufyrirtæki. Á námskeiðunum voru tekin fyrir hagnýt atriði fyrir þá sem standa í rekstri eins og fjárhags- og rekstraráætlanir, bókhald, viðskiptaáætlanir o.fl. Fyrirlesarar hafa komið frá Háskólanum á Akureyri fyrir milligöngu Ferðamálasetursins, Landsbankanum og ráðgjafafyrirtækinu Deloitte. Aðrir sem styrkt hafa námskeiðin eru Flugfélag Íslands, bílaeigan ALP, Byggðastofnun og samgönguráðuneytið.
Ánægja hefur verið með námskeiðin og þátttaka góð
Rannsókn um þolmörk ferðamennsku í Landmannalaugum
Út er komin skýrsla í kjölfar rannsóknar á þolmörkum ferðamennsku í Landmannalaugum. Hefur Ferðamálasetur Íslands tekið þátt í þeirri rannsókn ásamt Ferðamálaráði Íslands, Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Þar með er þriðja skýrslan um þolmörk ferðamennsku lokið en áður hafa komið út skýrslur um Þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli og Þolmörk ferðamennsku um friðlandið í Lónsöræfum.
Skýrslan um Þolmörk ferðamennsku í Landmannalaugum er aðgengileg á heimasíðu Ferðamálasetursins og Ferðamálaráðs Íslands. Skýrsla - Þolmörk ferðamennsku í Landmannalaugum
Febrúar 2004
Styrkur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyar
Ferðamálasetur Íslands hefur hlotið styrk að upphæð 570 þúsund krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Sótt var um styrkinn fyrir verkefni sem fara á af stað nú í vor og beinist að því að kanna hagræn áhrif ferðamennsku á Eyjafjarðarsvæðinu. Styrkveitingin er mikil hvatning fyrir þá sem koma að rannsókninni. Veitt er úr sjóðnum einu sinni á ári
Styrkur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri
Ferðamálasetur Íslands hefur hlotið styrk að upphæð 570 þúsund krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Sótt var um styrkinn fyrir verkefni sem fara á af stað nú í vor og beinist að því að kanna hagræn áhrif ferðamennsku á Eyjafjarðarsvæðinu. Styrkveitingin er mikil hvatning fyrir þá sem koma að rannsókninni. Veitt er úr sjóðnum einu sinni á ári.
September 2003
Komið á fjárlög
Fjárhagsstaða Ferðamálaseturs var tryggð enn frekar við ákvörðun menntamálaráðuneytis um föst fjárframlög til þess. Var það Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra sem hafði framgöngu um það mál. Með þessari ákvörðun er ýtt enn frekar undir vaxandi starfsemi Ferðamálsetursins og viðurkenning á nauðsyn rannsókna fyrir ferðaþjónustuna.
Stjórnarfundur Ferðamálaseturs
Fundur stjórnar Ferðamálasetursins var haldinn á Sólborg um miðjan desembermánuð. Fram kom að staða þess er mjög góð bæði fjárhagslega og verkefnalega. Er því góður grundvöllur fyrir áframhaldandi vaxandi starfsemi.
Desember 2003
Undirritun samnings
Ferðamálaráð og Ferðamálasetur Íslands hafa gengið frá samningi sem hefur að markmiði að efla enn frekar rannsóknir og þróun á sviði ferðaþjónustu og ferðamennsku. Í áðurnefndum samningi kemur fram að Ferðamálaráð leggur Ferðamálasetrinu til ákveðna fjárupphæð mánaðarlega vegna rannsókna eða þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Er m.a. kveðið á um að stofnanirnar vinni sameiginlega áætlun um hvers konar rannsóknir og/eða þróunarverkefni sem Ferðamálasetrið vinni á næstu mánuðum.
Maí 2003
Málþing um hagræn áhrif ferðaþjónustu
Ferðamálasetur Íslands efnir til málþings undir yfirskriftinni Hagræn áhrif ferðaþjónustu. Málþingið verður haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands, miðvikudaginn 12. maí. kl: 13:30-17:00. Þar verða margir frummælendur sem fjalla um málefnið frá ýmsum hliðum. Meðal þeirra er prófessor Tom Baum sem er forstöðumaður ferðamáladeildar The University of Strathclyde. Í lokin verða svo fyrirspurnir og umræður, sjá dagskrá. Aðgangur er opinn öllum. Skráning fer fram hjá - Ferðamálasetri Íslands, s: 463-0959.