Fréttir 2010
Desember
Málþing um skotveiðitengda ferðaþjónustu á Íslandi
Um 30 manns tóku þátt í málþingi um skotveiðitengda ferðaþjónustu á Íslandi sem var haldið í Háskólanum á Akureyri þann 13. desember sl. Yfirskrift málþingsins var „Skotveiðitengd ferðaþjónusta – þróunarmöguleikar í dreifðum byggðum“ og voru þar kynntar niðurstöður þeirra rannsókna sem sérfræðingar unnið að í tengslum við North Hunt-verkefnið á Íslandi á árunum 2008-2010. Verkefninu lýkur núna um áramótin.
Eyrún Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála og Hjördís Sigursteinsdóttir sérfræðingur hjá RHA – Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri kynntu niðurstöður viðtalsrannsóknar um viðhorf hagsmunaaðila til skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Í máli þeirra kom fram að það ættu að vera möguleikar fyrir heimamenn og gesti sem veiða á meðan almenn sátt ríki um fyrirkomulagið. Einnig kom fram að ef ferðaþjónusta í kringum skotveiðar er vel skipulögð og ef það ríkir almenn sátt um hana þá getur skotveiðitengd ferðaþjónusta verið jákvæður hlutur sem gefur eitthvað til samfélagsins á því svæði sem hún er stunduð. Steinar Rafn Beck sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun um mat á stofnstærðum og veiðiþol algengustu veiðitegunda út frá fyrirliggjandi gögnum Umhverfisstofnunar. Því næst fjallaði Stefán Sigurðsson aðjúnkt við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri um könnun sína meðal íslenskra veiðimanna á útgjöldum vegna skotveiða. Loks fjallaði Jón Þorvaldur Heiðarsson sérfræðingur hjá RHA um mat á efnahagslegum ávinningi af skotveiðum í dreifbýli á Íslandi. Í máli þeirra Stefáns og Jóns Þorvalds kom fram að töluverð útgjöld fylgja skotveiðum og hafa þessi útgjöld áhrif á atvinnulíf á viðkomandi veiðisvæði..
Auk kynninga á niðurstöðum ofangreindra rannsókna var fjallað um þróun skotveiðitengdrar ferðaþjónustu út frá sjónarmiðum hagsmunaaðila. Guðbjörg H. Jóhannesdóttir atvinnu- og nýsköpunarráðgjafi hjá Bændasamtökum Íslands fjallaði um sóknarfæri og nýsköpun fyrir landeigendur í tengslum við þjónustu við veiðimenn. Því næst talaði Elvar Árni Lund varaformaður Skotveiðifélags Íslands um áhrif skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á veiði heimamanna. Sigríður Bragadóttir, Ferðaþjónustunni Síreksstöðum fjallaði þar næst um sína reynslu af uppbyggingu ferðaþjónustu við veiðimenn, tilraunir landeigenda í Vopnafirði um stofnun félags landeigenda um skotveiðihlunnindi á svæðinu. Að lokum talaði Sævar Guðjónsson hjá Ferðaþjónustunni Mjóeyri við Eskifjörð um tækifæri og hindranir í uppbyggingu skotveiðitengdrar ferðaþjónustu og hvaða leiðir væri hægt að fara til að nálgast markaði.
Í umræðum á málþinginu kom m.a. fram að þörf er á því að hagsmunaaðilar ræði saman um málefni skotveiða og ferðaþjónustu og hafi samvinnu sín á milli þegar kemur að skipulagningu og þróun þessara mála.
Niðurstöður rannsóknanna, sem voru kynntar á málþinginu er að finna á heimasíðu North Hunt (http://www.north-hunt.org/en/page/research_results/). Einnig er hægt að nálgast erindin, sem flutt voru á málþinginu, á heimasíðu North Hunt (http://www.north-hunt.org/is/page/malstofur)
Geótúrismi
Út er komin skýrsla sem tekur saman heimildir og helstu umræðu um geótúrisma (e. geotourism) í samhengi við þróun ferðaþjónustu á Borgarfirði eystra. Einnig er að finna í skýrslunni niðurstöðu könnunar meðal ferðafólks í Borgarfirði sumarið 2010.
Nóvember
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2011
Þema náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2011 er sjálfbær ferðaþjónusta. Verðlaunin verða veitt í 17. sinn og nema 350.000 dönskum krónum. Þau verða veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur verið í fararbroddi og stuðlað að því að draga úr umhverfisáhrifum ferðaþjónustu á Norðurlöndum.
Öllum er heimilt að senda inn tillögur um verðlaunahafa. Í tillögunum þarf eftirfarandi að koma fram auk rökstuðnings:
- Kynning og lýsing á starfseminni.
- Hver hefur haft veg og vanda af starfseminni.
- Starfsemin skal vera faglega unnin og hafa þýðingu fyrir almenning í einu eða fleiri norrænu ríkjanna.
- Tillagan má að hámarki vera tvær A-4 síður og skal henta til fjölföldunar.
Verðlaunahafinn verður valinn af nefnd sem skipuð er fulltrúum norrænu ríkjanna fimm og sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja.
Tillögurnar skulu sendar inn á sérstöku eyðublaði og þurfa að berast skrifstofu sendinefndar Noregs í Norðurlandaráði, í síðasta lagi föstudaginn 10. desember 2010 kl. 12.00.
Eyðublaðið er hægt að nálgast á vefsíðu Norðurlandaráðs, norden.org, eða hjá skrifstofu norsku sendinefndarinnar.
Nordisk Råd
Den norske delegation
Stortinget, 0026 Oslo
Sími: +47 2331 3568
Netfang: nordpost@stortinget.no
Október
Ferðamál og félagsvísindi
Föstudaginn 29. október 2010 verður hin árlega félagsvísindaráðstefna Þjóðarspegill haldin við Háskóla Íslands. Sem fyrri ár verða tvær málstofur um ferðamál og hefjast þær eftir hádegið, kl. 13.00 og eru í Gimli, byggingu tengdri nýju Háskólatorgi. Rannsóknamiðstöð ferðamála er beintengd 5 af 8 verkefnum sem þarna eru kynnt, sum unnin af starfsfólki RMF en önnur með stuðning og aðkomu RMF. Samhliða ráðstefnunni verður sem fyrri ár fundur kennara og rannsakenda í ferðamálafræðum og verðu hann haldin 17.00 daginn áður (28. okt) í veitingastaðnum Dill í Norræna Húsinu.
Hér að neðan má sjá hvað fjallað verður um á þessum tveimur málstofum en hvert erindi er um 15 mínútur.
September
Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú lokið við gerð skýrslu um sagnamennsku og hvernig hún er virkjuð í þágu ferðaþjónustu. Skýrslan lýsir aðferðum og árangri af uppbyggingu Landnámsseturs í Borgarnesi (www.landnam.is) og er hluti af stærra verkefni styrktu af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni (NICe) um sagnamennsku og þróun áfangastaða. Í lok ársins verður lokaskýrsla heildarverkefnisins tilbúin en þar má sjá samanburð Landnámsseturs við aðra áfangastaðir á Norðurlöndum sem nýta sér sagnir og sagnamennsku í sinni ferðaþjónustu. Björg Árnadóttir hjá Reykjavíkur Akademíunni vann íslenska hlutann og eru henni færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Lesa skýrsluna um sagnamennsku.
Norræna Nýsköpunarmiðstöðin hefur einnig styrkt RMF til rannsókna á þróun heilsuferðamennsku og er einnig um samnorrænt verkefni að ræða. Mun íslenska skýrslan um þróun og uppbyggingu Jarðabaðanna í Mývatnssveit verða brátt tilbúin og auglýst á vef RMF. Einnig verður í lok ársins tilbúin lokaskýrsla með samanburði Jarðbaða við aðra valda áfangastaði heilsuferðamennsku á Norðurlöndum.
Ágúst
RMF lendir nýju NPP verkefni
Nú á haustdögum mun RMF leiða verkefni á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins á Íslandi um þróun sjálfbærra samgangna í þágu ferðaþjónustu á jaðarsvæðum. Er markmið verkefnisins að þróa nýjungar í samgögnum fyrir svæði á jaðri norður Evrópu sem byggja afkomu sína á ferðaþjónustu að hluta eða öllu leyti. Er verkefnið unnið í samvinnu við Svía og Skota og mun leitast við að bæta net almenningssamgangna og upplýsingagjöf þar um. Þannig stendur til að þróa:
- Nýjar leiðir fyrir ferðaþjónustu sem mætir árstíðarsveiflum og tengist flugsamgögnum
- Samnýting leiða fyrir flutning á mat til áfangastaða og sorphirðu og endurvinnslu frá áfangastöðum
- Notendavæna upplýsingagjöf gegnum netið og farsíma
Er Rannsóknamiðstöðin nú að leita áfangastaða innanlands sem og fyrirtækja sem vilja taka þátt í þróunarvinnunni á næstu þremur árum.
Júlí
Rannsóknaverkefni RMF í sumar
Rannsóknamiðstöð ferðamála fylgist vel með straumi ferðafólks um landið og heldur úti könnunum og rannsóknarvinnu um allt land þetta ferðasumar. Kannanir meðal ferðafólks eru nú meðal allra brottfararfarþega í flugi Iceland Express á Akureyrarvelli, en að auki í Fjallabyggð, Borgarfirði Eystri og Mývatnssveit. Einnig er unnið að viðtölum fyrir ferðaþjónustufólk á höfuðborgarsvæðinu í kringum stjórnunarhætti ferðaþjónustu, eigendur sumarhúsa, ferðamálafrömuði á Vesturlandi og sérstaklega Borgarfirði sem og þróun ferðaþjónustu á Austurlandi. Einnig er í burðarliðnum að kanna væntingar landsmanna til þjóðgarðsins á Þingvöllum þetta sumarið.
Júní
Registration now open!!
Having now received over 100 abstracts we would like to invite you to register on the conference webpage of the 19th Nordic Symposium in Tourism and Hospitality Research (see: rmf.is/19thnordicsymposium). We remind you that the early bird registration fee (500 EUR) is valid till 30th June, then it will go up to 700 EUR.
For those registering as PhD students we remind you that the workshop is included in your fee and that you will be required to submit an extended version of your abstract and then a full paper (see conference webpage for details). We will be in touch with those registering as PhD students especially.
Looking forward to seeing you in Akureyri
Edward, Gunnar and Jón Gestur
Apríl
Ferðamenn í góðu yfirlæti á Íslandi
Ferðamálaráð kom saman til fundar í hádeginu í dag, 16. apríl 2010, og telur ástæðu til þess að vekja ahtygli á að daglegt líf á Íslandi gengur sinn vanagang þrátt fyrir að eldgos í Eyjafjallajökli á suðurströnd Íslands hafi veruleg áhrif og skapi hættu á tilteknu svæði. Í öðrum landshlutum er mannlíf í föstum skorðum.
Enda þótt gosið í Eyjafjallajökli sé tiltölulega lítið þá hefur gosaska dreifst víða og truflað flugsamgöngur í Evrópu. Það er sameiginlegt viðfangsefni flugmála- og ferðamálayfirvalda í Evrópu að finna leiðir til þess að koma ferðamönnum til áfangastaða af fullkomnu öryggi. Almannavarnir á Íslandi sjá um að fyllsta öryggis sé gætt innanlands og stöðugar upplýsingar berist til allra sem á þeim þurfa að halda. Euro Control og Volcanic Ash Center ákveða um flugheimildir í Evrópu. Enda þótt gosið yrði langvinnt, sem engin leið er að spá um, er talið að úr gosöskumyndun dragi þegar forsendur fyrir blöndun vatns og eimyrju eru ekki lengur fyrir hendi. Ferðamálaráð varar við yfirdrifnum fréttum af gosinu en hvetur ferðamenn til þess að fylgjast vel með þróun þess. Þeir ferðamenn sem eru á Íslandi um þessar mundir eru í góðu yfirlæti og reynt er að greiða götu þeirra sem best má. Reykjavík 16. apríl 2010.
Nánari upplýsingar veitir Svanhildur Konráðsdóttir formaður Ferðamálaráðs í síma 693 9363.
Mars
Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræði
Árni Gunnarsson formaður SAF afhendir Jónu verðlaunin, forstöðumaður RMF til hægri.
Rannsóknamiðstöð ferðamála veitir nú í fimmta sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2010, sem haldin var þriðjudaginn 23. mars á hótel Nordica í Reykjavík. Dómnefnd, sem skipuð er stjórn og forstöðumanni RMF, hefur metið átta verkefni skólaársins 2009 sem þóttu afar góð og/eða mjög athygliverð, en þau eru:
Ferðahegðun Íslendinga innanlands sumarið 2009, BS ritgerð Sigríðar Erlendsdóttur frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Akureyri að vetri, BS ritgerð Valdemars Valdemarssonar við viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri.
Silungsveiði í Skagafirði, BA ritgerð Kristjáns Benediktssonar frá háskólanum á Hólum.
Skelfilegar minningar, dauði og hörmungar sem aðdráttarafl í ferðamennsku, BS ritgerð Ingibjargar Helgu Sveinbjörnsdóttur frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Iceland Express: Samsetning farþega og hvataþættir ferða, BS ritgerð Jóhönnu Bjarkar Kristinsdóttur frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Göldrum líkast? Starfsemi Strandagaldurs og áhrif á byggðarlagið, BS ritgerð Önnu Bjargar Þórarinsdóttur frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Heim að Hólum: Hólar sem áfangastaður ferðamanna, BA ritgerð Claudiu Lobindzus frá háskólanum á Hólum.
Kjölur – Fjölbreytt landslag, ferðamennska og upplifun, BS ritgerð Jónu Sigurbjargar Eðvaldsdóttur frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti ritgerð Jónu Sigurbjargar Kjölur – Fjölbreytt landslag, ferðamennska og upplifun, frá verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands – ferðamálafræði.
Í umsögn dómnefndar segir: Í verkefni sínu fjallaði Jóna um niðurstöður rannsóknar sem unnin var á Kili sumarið 2009 og fólst í viðtölum við erlenda ferðamenn á svæðinu. Markmiðið var að greina hvernig ferðamennska ætti sér stað á Kili og hvernig upplifun þeirra sem hana stunduðu var. Rökstuddi höfundur áherslur sínar þannig að skilningur á væntingum og upplifunum ferðafólks sé forsenda stjórnunar á nýtingu víðernissvæða. Sjónarhorn ferðamannsins er þannig lykill að þróun ferðavöru til fjalla sem og annarsstaðar. Það sem höfundur komst að var að ferðafólk á Kili sóttist í kyrrð og frið öræfa til að stunda náttúrutengda afþreyingu og var fjölbreytileiki náttúruupplifunar þeim ofarlega í huga. Dómnefndin telur að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu um auðlindir íslenskrar ferðaþjónustu sem bæði ferðamenn og hagsmunaðilar eru sammála um að liggi í náttúru og víðernum landsins. Mikil umræða er nú um stýringu og skipulag víðernissvæða og liggur nú fyrir þingsályktunartillaga um landnýtingaráætlun á hálendi Íslands, þar sem gera skal grein fyrir hlutverki ferðaþjónustu. Sambærileg tillaga liggur fyrir um landnýtingu ferðaþjónustu á láglendi en hefur ekki enn komið fram í formi þingsályktunar. Í báðum tilfellum er mikilvægt að vanda vel til verka og greina af fagmennsku undirstöðu uppbyggingar í ferðaþjónustu en það er upplifun væntanlegra neytenda, ferðafólks til landsins. Verkefni Jónu er vandað og unnið samviskusamlega með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Ætti hennar vinna að verða öðrum til eftirbreytni og er hún verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2010. Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is) Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum ásamt Ferðamálastofu og Samtökum ferðaþjónustunnar starfrækja sameiginlega Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.
„Stórkostleg ný tækifæri í ferðaþjónustu á Norðurlandi“
Norðurland nýr áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn gegnum beint flug til Akureyrar
Opin blaðamannafundur á Hótel KEA, mánudaginn 8. mars, kl: 10.00
Sumarið 2009 gerði Rannsóknamiðstöð ferðamála ítarlega könnun meðal brottfararfarþega í flugi Iceland Express frá Akureyraflugvelli. Var þetta í fyrsta sinn sem slík rannsókn hefur verið gerð og var hún unnin í náinni samvinnu við Flugstoðir. Nú liggja niðurstöður fyrir sem verða kynntar á opnum fundi mánudaginn 8. mars á Hótel KEA kl: 10.00.
Í könnuninni var spurt um ferðavenjur, neyslumynstur og upplifun þeirra erlendu gesta sem fara frá Íslandi um Akureyraflugvöll og ferðamynstur þeirra um Norðurland kortlagt. Var könnunin sett upp í sex hlutum. Í fyrsta lagi voru nokkrar almennar spurningar um Íslandsferð svarenda, sem gefa gleggri mynd af ferðamynstri þátttakenda um áfangastaðinn Ísland. Í þessum hluta var t.a.m. spurt um tilgang ferðar, ferðafélaga, dvalarlengd, hvar viðkomandi komi inn í landið og hvaða landshlutar aðrir en Norðurland voru sóttir heim í ferðinni. Í öðru lagi voru sérstakar spurningar sem er ætlað að gefa vísbendingar um ferðamynstur farþeganna um Norðurland á meðan á Íslandsdvöl stóð. Hér var sérstaklega spurt um hvaða staðir/svæði á Norðurlandi voru heimsótt, fjölda gistinátta, gistimáta, samgöngumáta og nýtta afþreyingu. Í þriðja lagi var spurt um helstu útgjaldaliði. Í fjórða lagi voru spurningar um gæði og upplifun þátttakenda af Norðurlandi og þjónustu þar. Í fimmta lagi voru spurningar um upplýsingaþörf og -notkun þátttakenda könnunarinnar bæði fyrir ferð og í ferðinni. Í sjötta og síðasta lagi voru spurningar sem snéru að flugvellinum sjálfum.
Helstu niðurstöður eru þær að þeir erlendu farþegar sem koma og fara gegnum Akureyraflugvöll dveljast mun lengur á Norðurlandi en aðrir erlendir gestir. Nærri helmingur ferðast aðeins um Norðurland og inná Austurland og er því ljóst að með beinu flugi opnast möguleikar á þróun nýs áfangastaðar í ferðaþjónustu, sem við sjáum þegar móta fyrir nú. Einnig er mögulegt útfrá þeim gögnum sem aflað var að áætla tekjur af komum þessara gesta og þannig einnig hvað mörg störf í ferðaþjónustu gætu orðið bein afleiðing millilandaflugsins.
Dagskrá:
Á fundinum kynnti Eyrún Jenný Bjarndóttir, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála ofangreindar niðurstöður. Skoða erindi.
Þá velti Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála upp hugmyndum um mikilvægi millilandaflugsins fyrir hagkerfið á Norðurlandi og mögulegri fjölgun starfa í ferðaþjónustu á svæðinu ef framtíðaráform ferðaþjónustunnar ná fram að ganga um heilsársflug milli Evrópulanda og Akureyrar. Skoða erindi.
Einnig skoðaði Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur við Háskólann á Akureyri, í stuttu erindi helstu aðdráttaröfl ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Að lokum voru umræður og fyrirspurnir en í pallborði sátu Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri. Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs og frummælendur.
Fundi stýrði Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður
Febrúar
Skipun stjórnar RMF 2010
Frá og með aðalfundi 2010, hefur stjórn RMF verið endurnýjuð og allir stjórnarmenn fengið endurnýjað umboð frá þeim stofnunum sem þeir eru fulltrúar fyrir. Eru fulltrúar skipaðir til þriggja ára í senn, en þeim ber meðal annars að skipa forstöðumann með embættisbréfi til þriggja ára. Umboð núverandi forstöðumanns þarf því að endurnýja haustið 2011, þar sem gengið var frá núgildandi samning í ágúst 2008.
Stjórnina skipa nú:
Nafn |
Stofnun |
Nánari upplýsingar |
Rögnvaldur Ólafsson, formaður |
Háskóli Íslands |
|
Anna Dóra Sæþórsdóttir |
Háskóli Íslands |
|
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir |
Háskólinn á Akureyri |
|
Fjóla Björk Jónsdóttir |
Háskólinn á Akureyri |
|
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir |
Háskólinn á Hólum |
|
Bjarnheiður Hallsdóttir |
Samtök ferðaþjónustunnar |
|
Oddný Þóra Óladóttir |
Ferðamálastofa |
Janúar
Ferðaþjónusta á jaðrinum:
Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi
Ferðaþjónusta á jaðrinum: Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi er titill þriggja ára rannsóknarverkefnis sem dr. Gunnar Þór Jóhannesson, nýdoktor (post doc.) við Mannfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís en Rannsóknamiðstöð ferðamála er náinn samstarfsaðili í verkefninu. Öðru styrkári er nú að ljúka. Sjá Upplýsingar um framvindu og afrakstur verkefnisins.