Fyrsta doktorsvörnin í ferðamálafræði við íslenskan háskóla
Johannes (Hans) Theodorus Welling varði doktorsverkefni sitt í ferðamálafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands sl. föstudag. Hans er fyrsti doktorsneminn sem útskrifast í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Af því tilefni færðu stjórn og starfsfólk RMF honum blóm í lok athafnar.
Ritgerðin ber heitið Jöklaferðamennska og aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi. Jöklaferðamennska er dæmi um ferðaþjónustu sem þarf að aðlagast breyttu umhverfi vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Í ritgerðinni var metið hvernig aðlögun að breyttum umhverfisaðstæðum vegna loftslagsbreytinga í náttúrutengdri ferðaþjónustu er háttað með því að greina aðlögunarferli og starfshætti ferðaþjónustuaðila sem stunda jöklaferðamennsku. Athöfnin var haldin í Hátíðasal Háskóla Íslands en vegna samkomutakmarkana var hún einnig í beinu streymi á netinu. Nánar má lesa um verkefnið á vefsíðu Háskóla Íslands.
Andmælendur við vörina voru dr. Christopher Lemieux, dósent við Wilfrid Laurier University, Ontario, Kanada og dr. Halvor Dannevig, forstöðumaður rannsókna við Vestlandsforsking, Western Norway Research Institute, Noregi.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði og dr. Rannveigar Ólafsdóttur, prófessors við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd var einnig dr. Bruno Abegg, prófessor við University of St. Gallen, Sviss.
Stjórn og starfsfólk Rannsóknamiðstöðvar ferðamála óskar Hans Welling hjartanlega til hamingju með doktorsritgerðina.