Gunnþóra Ólafsdóttir ráðin sérfræðingur hjá RMF
Gunnþóra Ólafsdóttir hefur tekið til starfa sem sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála.
Gunnþóra lauk doktorsnámi við landfræðideild Bristol háskóla á Englandi árið 2007 og BS prófi frá jarð- og landfræðideild Háskóla Íslands í febrúar 2003. Meðfram BS náminu vann hún með kennurum sínum við rannsóknina Þolmörk Ferðamennsku á Íslandi.
Áður en hún hóf háskólanám starfaði hún á vettvangi íslenskrar ferðaþjónustu sem flugfreyja, ferðaskipuleggjandi og leiðsögumaður erlendra ferðamanna. Einnig byggði hún upp og rak ásamt fyrrverandi eiginmanni og fjölskyldu, eigið fyrirtæki. Árið 2002 hlaut Gunnþóra hvatningaverðlaun Evrópusambandsins – Archimedes Prize – fyrir unga vísindamenn.
Sérsvið Gunnþóru er náttúrutengd ferðamennska. Síðastliðin ár hefur hún unnið með viðurkenndum erlendum og innlendum sérfræðingum í sálfræði, landfræði og lífvísindum við grunnrannsóknir á aðdráttarafli íslenskrar náttúru fyrir ferðamennsku og útivist; (náttúru)upplifun og áhrifum umhverfis á líðan og heilsu í tengslum við ferðamennsku, útivist og aðrar frístundir.
Starfsstöð Gunnþóru verður á skrifstofu RMF í Reykjavík, það er í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.