Heimafólk, ferðamenn og ferðamannaleiðir – rannsóknir á uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli

Sumarið 2024 vann RMF tvær rannsóknir á uppbyggingu ferðaþjónustu og nýjum ferðamannaleiðum í dreifbýli. Rannsóknarsvæðin voru Vatnsnes og Melrakkaslétta sem bæði eru á nýlegri ferðamannaleið, Norðurstrandarleið – the Arctic Coast Way.

Annarri rannsókn RMF var beint að heimafólki á Vatnsnesi og Melrakkasléttu og tók til aðkomu heimafólks að tilurð leiðarinnar og sýn þeirra á ferðaþjónustu í héraði og nýtingarmöguleikum leiðarinnar í því sambandi. Rannsóknin var unnin í samvinnu við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) með styrk úr Byggðarannsóknasjóði. Sú var gerð með könnun meðal heimafólks auk könnunarviðtala og umræðna á heimasvæðum að afloknum kynningum á niðurstöðum. Helstu niðurstöður rannsóknar eru þær að heimafólk er almennt jákvætt gagnvart ferðaþjónustu og Norðurstrandarleið og telja leiðina geta orðið til hagsbóta fyrir heimasvæðin meðan fram koma umtalsverðar áhyggjur af ástandi malarvega á svæðunum. Þá sýna niðurstöður einnig áherslumun milli heilsársíbúa svæðanna annars vegar og hins vegar land- og húseigenda og annarra tengdra aðila sem dvelja á svæðunum hluta árs.

Þetta og ýmislegt fleira athyglisvert má lesa í niðurstöðuskýrslu rannsóknar sem nálgast má hér.

 

Hinni rannsókn RMF var beint að ferðamönnum sem fara um Vatnsnes og Melrakkasléttu og var hún unnin með styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Rannsóknin var framkvæmd með könnun meðal ferðamanna á svæðunum tveimur auk örviðtala við ferðamenn og heimafólk og vettvangsferðum rannsakanda um svæðin. Helstu niðurstöður sýna að ferðamenn eru enn sem komið er ekki mjög meðvitaðir um tilvist Norðurstrandarleiðar og að svæðin tvö draga til sín mjög ólíka hópa ferðamanna auk þess sem fram koma nokkuð misvísandi svör varðandi ástand vega svæðanna. Bæði svæðin draga til sín ferðmenn sem helst eru að skoða sig um auk þess sem á Vatnsnesi eru það selir og Hvítserkur sem toga meðan að á Melrakkasléttu eru það Heimskautsgerði og fuglar. Niðurstöður sýna þó engu að síður að þrátt fyrir að margt sé líkt með svæðunum tveimur er jafnframt ýmislegt sem aðgreinir þau með tilliti til ferðaþjónustu, þar á meðal það að þau draga til sín alls ólíka hópa ferðamanna.

Meira um það og margt annað forvitnilegt sem niðurstöður sýna má lesa í niðurstöðuskýrslu rannsóknar sem er aðgengileg hér.