Ingjaldssjóður stofnaður
Nýr styrktarsjóður hefur verið stofnaður við Háskóla Íslands til minningar um Ingjald Hannibalsson prófessor. Sjóðurinn ber nafnið Ingjaldssjóður. Ingjaldur varð bráðkvaddur fyrir rúmu ári og arfleiddi HÍ að öllum sínum eigum.
Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun eða alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist.
Stofnskrá Ingjaldssjóðs var undirrituð af Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þann 17. nóvember sl., á fæðingardegi Ingjalds. Rektor hefur yfirumsjón með sjóðinum en stjórn sjóðsins skipa þau Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild sem jafnframt er formaður stjórnar, Karólína Eiríksdóttir tónskáld og Þórður Sverrisson viðskiptafræðingur. Stjórn sjóðsins er skipuð til þriggja ára í senn. Stofnfé sjóðsins er sjötíu milljónir króna.
Ingjaldur Hannibalsson fæddist 17. nóvember 1951. Hann var sonur Hólmfríðar Ingjaldsdóttur kennara og Hannibals Valdimarssonar ráðherra. Ingjaldur lauk stúdentsprófi frá MR 1971, prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá Háskóla Íslands 1974, M.Sc.-prófi 1975 og doktorsprófi 1978 í iðnaðarverkfræði frá Ohio State University. Ingjaldur starfaði á áttunda áratugnum sem stundakennari við MR og sem aðstoðarkennari og við rannsóknir meðan á dvöl hans við Ohio State University stóð. Hann varð deildarstjóri tæknideildar Félags íslenskra iðnrekenda þegar hann kom heim úr námi.
Árið 1978 hóf Ingjaldur stundakennslu við Háskóla Íslands og varð fastráðinn dósent árið 1982, lengst af í hlutastarfi. Á níunda áratugnum sinnti hann öðrum störfum og var m.a. forstjóri Iðntæknistofnunar, forstjóri Álafoss og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands. Árið 1993 kom hann í fullt starf við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og varð prófessor við skólann árið 1997.
Ingjaldur sinnti mörgum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina innan skólans, m.a. sem skorarformaður og deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar, síðar Viðskiptafræðideildar. Hann var formaður fjármálanefndar háskólans, framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs og sinnti þar margvíslegum nefndarstörfum. Ingjaldur sat einnig í stjórnum fyrirtækja og stofnana, í ráðgjafanefndum og faglegum dómnefndum. Ingjaldur var formaður stjórnar Rannsóknamiðstöðvar ferðmála allt frá stofnun árið 1999 til ársins 2009.
Ingjaldur var heimshornaflakkari og hafði hann nýlokið því markmiði að heimsækja öll 193 þátttökulönd Sameinuðu þjóðanna þegar hann lést. Það tók hann 49 ár en síðustu 63 löndin heimsótti hann í 10 heimsreisum sem hann skipulagði á árunum 2005-2014. Ingjaldur lést 27. október 2014.
Ingjaldssjóður er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands.