Málstofukall: Á stími til framtíðar: Hlutverk innviða í uppbyggingu akstursferðamennsku í dreifbýli
RMF er meðal skipuleggjenda málstofu um akstursferðamennsku í dreifbýli á 33. Ráðstefnunni Nordic Symposium on Hospitality and Tourism Research sem haldin verður á Borgundarhólmi í Danmörku í september nk.
Í umræðu um áhrif ferðamennsku er mikilvægt að horfa til mismunandi hreyfanleika og þeirra umbreytinga sem eiga sér stað bæði á Norðurlöndum og víðar. Í málstofunni er sjónum beint að ferðaþjónustu í dreifbýli þar sem almenningssamgöngur eru stopular og ferðamenn fara nær eingöngu um á bílum. Akstursferðamennska felst í því að ferðamenn aka milli þjónustukjarna um dreifbýl svæði og nýta innviði sem fyrir eru. Í samhengi innviða og akstursferðamennsku má tala um þrjá lykilþætti: ástand innviða í dreifbýli, fjölþættan tilgang og nýtingu þeirra og það hvort tilteknar leiðir hafi verið skilgreindar og markaðssettar sem ferðamannaleiðir. Sjálfbærni og virkni innviða skipta sköpum fyrir akstursferðamennsku þar sem hönnun og þróun getur haft áhrif á hreyfanleika ferðamanna og íbúa.
Í kjölfar umræðna á 32. Nordic Symposium og stofnunar Rannsóknanets um akstursferðamennsku í dreifbýli (RDTN) beinir þessi málstofa sjónum að hlutverki innviða í þróun ferðaþjónustu í dreifðum byggðum. Markmiðið er að leiða saman rannsakendur og aðila úr atvinnugreininni til að skoða hvernig akstursferðamennska getur stuðlað að sjálfbærri framtíð í dreifðum byggðum.
Hvatt er til innsendinga ágripa sem fjalla um eftirfarandi atriði:
- Hvaða innviðir eru nauðsynlegir fyrir sjálfkeyrandi ferðamenn á dreifbýlum svæðum án þess að skerða þarfir og ferðavenjur íbúa?
- Hvernig getur akstursferðamennska stuðlað að velferð samfélaga, umhverfisvernd og verndun menningararfs án þess að valda álagi á innviði?
- Hvers konar nýsköpun hefur átt sér stað í akstursferðamennsku þar sem tekist hefur að samræma þarfir ferðamanna og heimamanna?
- Hvaða áskoranir og tækifæri felast í hönnun og stjórnun innviða fyrir ferðamenn á dreifbýlum svæðum?
- Hvaða önnur sjónarhorn og þættir skipta máli í rannsóknum á akstursferðamennsku og þróun viðeigandi innviða?
Skipuleggjendur málstofunnar eru Tarja Tuulia Salmela, UiT The Arctic University í Noregi, Þórný Barðadóttir og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingar hjá RMF.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og innsendingu ágripa má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.