Nordic Symposium 29 ráðstefnan sett um streymi frá Akureyri
Hátt í 200 rannsakendur ferðamála á Norðurlöndum, hittast nú á rafrænni ráðstefnu sem stýrt er frá aðalskrifstofu RMF á Akureyri. Ráðstefnan átti upphaflega að fara fram á Akureyri síðastliðið haust en var þá frestað um ár vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Stefnan var þá tekin á staðarráðstefnu á Akureyri nú á haustdögum. Þegar til kom reyndust þó aðstæður jafnt hér á landi og ekki síður í nágrannalöndunum á þann veg að ráðlegast þótti að færa ráðstefnuna á rafrænt form.
Þegar skráningu lauk þann 8. september síðastliðinn höfðu hátt í 200 rannsakendur staðfest þátttöku sína. Þessir rannsakendur munu í dag og áfram næstu tvo daga flytja rafræn erindi og ræða rannsóknir sínar, auk þess sem þrír aðalfyrirlesarar munu segja frá eigin rannsóknaráherslum og nýlegum birtingum.
Ráðstefnan er hluti ráðstefnuraðar norrænna ferðamálarannsakenda Nordic Symposium on Tourism and Hospitality Research sem haldin er til skiptis á Norðurlöndunum fimm. Ráðstefnan í ár ber yfirskriftina Shaping mobile futures: Challenges and possibilities in precarious times og er hún sú 29 í ráðstefnuröðinni. Nánar má lesa um ráðstefnuna og erindi með því að smella hér.