Nýtt ritrýnt tímarit um ferðamál á norðurslóðum
Nýju vísindatímariti var hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn í Hannesarholti þann 7. desember síðast liðinn að viðstöddum góðum gestum. Tímaritið sem ber heitið Ferðamál á norðurslóðum verður gefið út af Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) í samstarfi við Ferðamálastofu, Háskólann á Akureyri, Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands. Tímaritinu er ætlað að vera vandaður vettvangur fyrir þverfræðilega umfjöllun um ferðamál, ferðamennsku og ferðaþjónustu á norðurslóðum.
Sérstakir gestir á stofndegi tímaritsins voru hr. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs Norðurslóða og heiðursdoktor Háskólans á Akureyri og dr. John Tribe, prófessor emeritus við Háskólann í Surrey og fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Annals of Tourism Research. Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri opnaði vefsíðu tímaritsins og ræddi við rektora háskólanna þriggja um miðlun rannsókna, mikilvægi samstarfs og samtals háskólasamfélags, atvinnugreinarinnar og hins opinbera.
Ásamt ritrýndum greinum mun tímaritið einnig birta óritrýnt efni s.s. rannsóknarpistla, samantektir frá ráðstefnum, bókadóma, viðtöl, o.fl. sem varðar ferðaþjónustu og ferðamál á norðurslóðum.
Tímaritið er opið öllum og munu greinar birtast jafnóðum og þær hafa verið samþykktar. Vefslóð tímaritsins er http://arctictourism.is
Hér má sjá myndir frá stofndegi tímaritsins