Nýtt verkefni: Tryggir ferðamannaskattur aukna sjálfbærni?
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) tekur þátt í nýju verkefni sem rannsakar hvort ferðamannaskattur geti verið grundvöllur sjálfbærar framtíðar samfélaga á norðlægum slóðum. Verkefnið ber heitið Regenerative Economic Transfers for Universal Resilience in the North – RETURN og er styrkt af Interreg áætlun Evrópusambandsins, The Northern Periphery and Arctic (NPA).
RETURN er þriggja ára samstarfsverkefni átta rannsóknastofnana og háskóla á NPA-svæðinu og hefst 1. apríl 2025. Markmið þess er að efla getu samfélaga til að þróa ferðaþjónustu sem nærandi (regenerative) afl sem styrkir byggð og samfélag til framtíðar.
Ferðaþjónusta er orðin einn helsti drifkraftur efnahagsþróunar á norðurslóðum en þessi vöxtur hefur einnig skapað áskoranir. Sveitarfélög hafa ítrekað bent á að aukin ferðaþjónusta valdi víða miklu álagi á innviði sem kalli á kostnaðarsamar umbætur án þess að tekjur fylgi á móti.
„Ferðaþjónusta hefur ótvíræða möguleika á því að vera lífsviðurværi til framtíðar fyrir norðlæg samfélög en til þess þarf kerfi sem tryggja að hún styðji bæði náttúru og samfélag. RETURN miðar að því þróa ferðaþjónustu í sjálfbæru og gagnkvæmu samstarfi gesta og áfangastaða,“ segir Ari Laakso, vísindamiðlari við Arctic Centre, Háskólanum í Lapplandi og upphafsmaður RETURN.
Lykilmarkmið verkefnisins er að aðstoða sveitarfélög og yfirvöld við að þróa gagnsæjar og skilvirkar aðferðir til að nýta tekjur af ferðaþjónustu í innviðauppbyggingu, náttúruvernd og bætta þjónustu. Þetta tryggir ekki aðeins sanngjarna dreifingu ávinnings ferðaþjónustu heldur einnig stuðlað að aukinni ábyrgðarkennd og þátttöku ferðamanna.
RETURN-verkefnishópurinn samanstendur af sérfræðingum frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Írlandi, Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið er leitt af háskólanum í Lapplandi í Rovaniemi en fulltrúar RMF í RETURN eru Dr. Johannes Welling, rannsakandi og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður sem er tengiliður verkefnisins á Íslandi: gudrunthora@unak.is Aðrir samstarfsaðilar RMF í verkefninu eru Samband íslenskra sveitarfélaga og Markaðsstofa Vesturlands.
Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Ari Laakso, verkefnisstjóri: ari.laakso@ulapland.fi +358(0)40-4844293.