Rannsóknamiðstöð ferðamála til framtíðar
Í ár fagnar Rannsóknamiðstöð ferðamála, RMF, 20 ára afmæli. Af því tilefni var efnt til vinnusmiðju þann 10. apríl undir fyrirsögninni: Hvað getum við gert fyrir ykkur? þar sem rætt var um þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála, hvert hlutverk RMF ætti að vera og hvernig miðstöðin gæti sem best komið að og sinnt samstarfi á þessu sviði.
Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnar RMF, setti vinnusmiðjuna. Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður RMF, kynnti starfsemi miðstöðvarinnar áður en fulltrúar hins opinbera, atvinnugreinar og háskólasamfélags fluttu stutt erindi. Gunnþóra Ólafsdóttir, Ferðamálastofu ræddi áherslumál hins opinbera; Vilborg Júlíusdóttir, Samtökum ferðaþjónustunnar ræddi um nauðsyn samfelldra hliðarreikninga ferðaþjónustunnar og Gunnar Þór Jóhannesson, Háskóla Íslands, ræddi rannsóknir ferðamála.
Fundarstjórar voru Sigrún Stefánsdóttir, stjórnarmaður RMF og þær Þórný Barðadóttir og Auður H. Ingólfsdóttir, sérfræðingar á RMF.
Í vinnusmiðjunni var unnið í sex vinnuhópum þar sem lagt var upp með tvö meginþemu: Mikilvægar rannsóknir í ferðamálum og hvaða þekkingu vantar og Hvert á hlutverk RMF að vera.
Líflegar umræður sköpuðust í vinnuhópunum og munu niðurstöður þeirra koma að góðum notum við yfirstandandi vinnu við mótun stefnu RMF til framtíðar.
Þátttakendur vinnusmiðjunnar voru fulltrúar háskóla, atvinnugreinar, sjálfstætt starfandi rannsakenda, markaðsstofa og ýmissa opinberra stofnana.
RMF þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir þeirra framlag.