Rannsóknir á ráðstefnumörkuðum
Hver er staða rannsókna á íslenska ráðstefnumarkaðnum og hvernig er rannsóknum á erlendum ráðstefnumörkuðum háttað? Í nýrri skýrslu RMF er helstu rannsóknum á þessu sviði gerð skil.
Nýútkomin skýrsla RMF tekur saman helstu rannsóknir og rannsóknaráherslur sem gerðar hafa verið á erlendum ráðstefnumörkuðum ásamt því að fara yfir stöðu slíkra rannsókna hér á landi.
Ráðstefnumarkaðir eða MICE-markaðir eru angi ferðaþjónustunnar sem hefur verið í miklum vexti bæði erlendis og á Íslandi og eru vísbendingar um að sá vöxtur muni halda áfram á næstu árum. Undir þennan markað falla ráðstefnur, fundir, hvataferðir, viðburðir og sölusýningar.
Í skýrslunni kemur fram að helstu rannsóknaráherslur erlendis séu að skoða efnahagslegan ávinning greinarinnar, ásamt markaðs- og markhópagreiningum. Einnig hafa ferðavenjur og viðhorf ráðstefnugesta verið könnuð. Rannsóknir í m.a. Danmörku, Bandaríkjunum og Bretlandi á efnahagslegum ávinningi hafa sýnt fram á að ráðstefnumarkaðir séu arðbærir, atvinnuskapandi og stuðla að betri nýtingu á innviðum ferðaþjónustunnar. Ráðstefnugestir eru einnig taldir mikilvægir ferðamenn þar sem dagleg eyðsla þeirra er að meðaltali meiri en hins almenna ferðamanns.
Á Íslandi hefur myndast ágætist tímalína yfir umfang ráðstefnumarkaðarins með könnunum á vegum ráðstefnuskrifstofunnar Meet in Reykjavík meðal sinna aðildarfélaga. Aftur á móti vantar heildstæðari rannsóknir á íslenska markaðnum og gestum hans, sér í lagi í ljósi þess að útreikningar á efnahagslegu mikilvægi markaðarins hér á landi eru að miklu leiti byggðar á erlendum forsendum.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Rannsóknir á ráðstefnumörkuðum – Samantekt