Rannsóknir og raunheimar – Hlaðvarp um ferðamál
29.01.2025
Fyrir skömmu hóf nýtt hlaðvarp um ferðamál göngu sína sem nefnist Ferðamál á Íslandi – Rannsóknir og raunheimar. Hlaðvarpið er á vegum fræðimanna við Háskóla Íslands og fjallar um helstu áskoranir og tækifæri ferðaþjónustunnar með áherslu á faglega og upplýsta umræðu.
Aðstandendur hlaðvarpsins eru Gunnar Þór Jóhannesson prófessor, Magnús Haukur Ásgeirsson aðjúnkt og doktorsnemi og Magdalena Falter doktor í ferðamálafræði en þau eru öll kennarar og rannsakendur við námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Þau fá til sín fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í ferðaþjónustu og vinna með fjölbreytt viðfangsefni tengd greininni.
Þættirnir eru aðgengilegir á YouTube-síðu verkfræði- og raunvísindasviðs Háskóla Íslands.