Rannsóknir RMF á íslenskum ferðaþjónustureikningum nýtast á alþjóðavettvangi
Nýverið skilaði INRouTe-samstarfsnetið (e. International Network on Regional Economics, Mobility and Tourism) skýrslu til Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (UNWTO) um aðferðir við kerfisbunda söfnun hagrænna gagna í ferðaþjónustu á svæðisbundna vísu. INRouTE mun kynna skýrsluna á sjöttu alþjóðlegu ráðstefnu Alþjóðaferðamálastofnunarinnar um ferðamálatölfræði sem stendur yfir dagana 21.-júní – 24. júní í Manila á Filippseyjum. Yfirskrift ráðstefnunnar er Mælingar á sjálfbærri ferðamennsku (e. Measuring Sustainable Tourism).
INRouTe-samstarfsnetið og vinna þess við þróun aðferða við söfnun hagrænna gagna svæðisbundið á sér töluverðan aðdraganda. Árið 2008 samþykkti Hagtölunefnd Sameinuðu þjóðanna alþjóðlegar leiðbeiningar um meðferð ferðaþjónustutölfræði á landsvísu. Þessar leiðbeiningar eru í dag eitt af grundvallarritum ferðamálatölfræðinnar. Á sama tíma var Alþjóðaferðamálastofnunin beðin um að setja fram leiðbeiningar um gagnaöflun í ferðamennsku á svæðisbundna vísu þar sem tekið væri tillit til tölfræðilegra grunngagna fyrir ferðaþjónustu, ferðaþjónustureikninga og greiningu á ferðaþjónustu í svæðisbundnum hagtölum. Í því skyni var stofnað samstarfsnet alþjóðlegra sérfræðinga í ferðamálatölfræði sem hlaut nafnið INRouTe. Undanfarin 6 ár hefur samstarfsnetið m.a. þróað aðferðir til svæðisbundinnar gagnaöflunar og er afrakstur þeirrar vinnu að líta dagsins ljós.
Meðal gagna sem liggja til grundvallar vinnu INRouTe-samstarfsnetsins eru íslenskir ferðaþjónustreikningar sem RMF og Hagstofa Íslands unnu við á árunum 2013-2015. Dr. Cristi Frent, þáverandi sérfræðingur hjá RMF, vann reikningana fyrir árin 2009 til og með 2013 með tilliti til alþjóðlegra staðla í ferðaþjónustutölfræði og ferðaþjónustureikningum. Tilgangur reikninganna var að meta áhrif ferðaþjónustu á íslenskan efnahag á þessum árum.
Cristi, sem hefur sérhæft sig í alþjóðlegum stöðlum ferðaþjónustureikninga, hefur tekið þátt í starfi INRouTe frá árinu 2012 og hafði aðkomu að ofangreindri útgáfu netsins m.a. með rannsóknunum sem hann vann hjá RMF á íslenskum ferðaþjónustureikningum.
Beinn tengill á skýrslu INRouTE er hér.
Árin 2013-2015 gaf RMF út fjórar skýrslur sem voru afrakstur rannsókna Cristis við ferðaþjónustureikningana. Beinir tenglar á þær eru hér fyrir neðan.