RMF hlaut styrk til samstarfs við Nord háskóla í Noregi
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) hlaut á dögunum styrk frá norðurslóðaáætun Rannís - Arctic Studies and Research. Sjóðurinn styður samstarf íslenskra og norskra stofnana við undirbúningsvinnu umsókna í alþjóðlega samkeppnissjóði. Slíkir styrkir skipta miklu máli fyrir RMF og gera kleift að efla alþjóðlegt samstarf og þróa spennandi rannsóknaverkefni.
Ása Marta Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá RMF, heimsótti Nord háskóla í Bodø í Noregi í síðustu viku þar sem hún vann með Hindertje Hoarau-Heemstra, dósent við félagsvísindadeild skólans, að undirbúningi nýrrar umsóknar. Ferðin markaði fyrsta skrefið í ferlinu, en stefnt er að því að Hindertje komi í heimsókn til RMF í maí til að vinna frekar að umsókninni með Ásu.
Ása og Hindertje hafa áður unnið saman að rannsókninni Sjálfbærni móttökusvæða skemmtiskipa á norðurslóðum: frá starfsháttum til stýringar, en í þetta sinn snúa þær sér að öðru rannsóknarsviði.