Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu
Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur gefið út tvær skýrslur í tengslum við rannsókn á samfélagslegum áhrifum ferðaþjónustu og ferðamennsku á einstök samfélög hér á landi. Rannsóknin var unnin með styrk frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.
Valin voru þrjú samfélög til rannsóknar á því hvaða áhrif hinn hraði vöxtur ferðaþjónustunnar hefur á minni samfélög, íbúa þeirra, menningu og daglegt líf í samfélagslegu tilliti. Þau eru: Siglufjörður, Höfn í Hornafirði og Mývatnssveit. Rannsóknin sem hér um ræðir byggir á svipaðri aðferðafræði og rannsókn Háskólans á Hólum frá árinu 2014 þar sem svæðin Hella, Ísafjörður, Húsavík og 101 Reykjavík voru til athugunar.
Við rannsóknina var notast við blandaðar rannsóknaraðferðir. Annars vegar voru tekin hálfopin viðtöl við íbúa í bæjarfélögunum þremur og hins vegar var spurningalisti lagður fyrir íbúa í símakönnun.
Niðurstöðurnar benda til þess að viðhorf til samfélagslegra áhrifa ferðaþjónustu séu mismunandi frá einum stað til annars. Á Siglufirði er mesta ánægjan með þær samfélagslegu breytingar sem orðið hafa og telja íbúarnir uppbyggingu hafa verið í góðum takti við fjölgun ferðafólks. Á Höfn eru húsnæðismálin fólki hugleikin auk þess sem meirihluti svaranda taldi sveitarfélagið ekki geta ráðið við aukinn fjölda ferðamanna miðað við núverandi aðstæður. Í Mývatnssveit var daglegt rask af völdum ferðaþjónustu mest og þar taldi yfirgnæfandi meirihluti ferðamenn vera orðna of marga yfir sumarmánuðina.
Rannsóknin var samstarfsverkefni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri en einnig var haft samráð við ferðamáladeild Háskólans á Hólum varðandi hönnun rannsóknar.
Skýrslurnar má lesa hér: