Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu

Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu
Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu

SAF og HÍ taka höndum saman

Námsbraut í Land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar gerðu með sér samstarfssamning um námskeið í Starfsþróun í ferðaþjónustu sem kennt var í fyrsta skipti á vormisseri 2015. Í því fólst m.a. að nemendur heimsóttu tiltekið fyrirtæki og kynntu sér starfsemi þess út frá ýmsum hliðum. Um tíu fyrirtæki tóku þá þátt í námskeiðinu og tóku vel á móti nemendum.

Námskeiðið verður kennt á ný eftir áramótin og mun SAF hafa milligöngu um að koma nemendum þess í starfskynningu í fyrirtækjum í samtökunum. Gert er ráð fyrir að nemendur heimsæki fyrirtæki og vinni verkefni um tengsl háskólamenntunar og atvinnugreinarinnar.

Þau fyrirtæki sem kunna að vilja nema í starfsheimsókn er bent á að hafa samband við Maríu Guðmundsdóttur, fræðslustjóra SAF, á netfanginu maria@saf.is sem fyrst.

Um er að ræða hagnýtt námskeið sem hefur að markmiði að gera nemendum kleift að yfirfæra þekkingu og hæfni úr grunnnámi í ferðamálafræði í hagnýtt umhverfi ferðaþjónustunnar. Nemendur fá innsýn í starfsemi fyrirtækja og stofnana á sviði ferðaþjónustu og vinna verkefni sem efla starfshæfni þeirra eftir að námi lýkur með áherslu á færni til að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu. Ætlast er til þess að nemendur kynni sér starfsemi tiltekinna fyrirtækja og afli sér þekkingar á ólíkum störfum í ferðaþjónustu.

Oft hefur verið bent á að það vanti sterkari tengingar milli háskólanáms í ferðamálafræði og atvinnugreinarinnar. Þetta námskeið er liður í að skerpa á þeim tengslum og um leið að brúa bilið milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og mögulegs framtíðarstarfskrafts þeirra.

Nánari upplýsingar:
• Gunnar Þór Jóhannesson, dósent í ferðamálafræði, gtj@hi.is
• María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF, maria@saf.is

 Sjá frétt á vef SAF