Sérfræðingar RMF á ferðamálaráðstefnu í Svíþjóð
Tveir sérfræðinga RMF tóku á dögunum þátt í norrænni ráðstefnu um ferðamál sem haldin var í Falun, Svíþjóð.
Eyrún Jenný Bjarnadóttir flutti erindi undir heitinu "Ok, I'll just have for dinner whatever they still have at the supermarket": Tourism impact in small Icelandic communities. Þar greindi Eyrún frá niðurstöðum rannsóknar á samfélagslegum áhrifum ferðaþjónustu í þremur samfélögum hérlendis. Rannsókn Eyrúnar var framkvæmd með viðtölum og úthringingum.
Þórný Barðadóttir sagði frá niðurstöðum hálf-staðlaðra viðtala við hagsmunaaðila móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip. Í erindinu Are we Poles apart? a North/South investigation into cruise ship tourism, greindi Þórný frá samanburði niðurstaðna áhersluefna hagsmunaaðila í móttökusamfélagi á Norðurlandi annars vegar og norðureyjar Nýja-Sjálands hins vegar. Í erindinu Is a dock all they need? Cruise ships in Northern Iceland var umfjöllunarefnið hins vegar samanburður niðurstaðna þriggja móttökusamfélaga skemmtiferðaskipa á Norðurlandi.
Auk Eyrúnar og Þórnýjar, voru sérfræðingar frá Háskólanum á Hólum, Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri með erindi á ráðstefnunni.
Þetta var í 26. sinn sem ráðstefna undir heiti Nordic Symposium of Tourism and Hospitality Research er haldin. Norðurlöndin fimm skipta með sér ráðstefnuhaldi og verður sú 27. haldin í Alta, Noregi dagana 25.-27. september 2018.
Þess má til gamans geta að árin 2015, 2010 og 2005 sá RMF um undirbúning og framkvæmd þessarar Norrænu ferðamálaráðstefnu fyrir hönd Íslendinga.