Staðsetning Grímseyjar og fuglalíf heillar
Í nýrri skýrslu RMF Ferðamenn í Grímsey sumarið 2018 kemur fram að erlendir ferðamenn í Grímsey voru ánægðir með dvöl sína í eynni, en heimskautsbaugurinn og fuglalífið voru meðal helstu hvata heimsóknarinnar. Skýrslan greinir frá helstu niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal ferðamanna á leið frá Grímsey í sumar um upplifun þeirra af eyjunni.
Markmið könnunarinnar var m.a. að kanna hvaða hópar væru að heimsækja Grímsey og hvað einkenndi þá. Einnig var verið að kanna hvar þeir fengu upplýsingar um eyjuna, hvað vakti áhuga þeirra á að heimsækja hana, ásamt ferðamáta, dvalarlengd og ferðahegðun.
Helstu niðurstöður sýna að stærsti hópurinn kemur frá Evrópu, langflestir eru í dagsferð og nýta sér ferjuna til að komast fram og tilbaka. Ferðamenn eru áhugasamir um náttúruna og samfélagið á eynni en kalla almennt eftir betri upplýsingagjöf um gönguleiðir, afþreyingu og eftirtektarverða staði.
Gagnaöflun var í höndum Akureyrarstofu, en RMF sá um úrvinnslu gagna og samantekt á niðurstöðum. Skýrslan var unnin með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra.