Tvær ritgerðir um ferðamál verðlaunaðar
Í gær veittu Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi. Tanja Sól Valdimarsdóttir hlaut verðlaun fyrir BS-ritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Michaël Bishop hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í land- og ferðamálafræði, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Tilkynnt var um verðlaunahafa á aðalfundi SAF sem fram fór með rafrænum hætti þann 29. apríl en verðlaunin voru afhent í 16. sinn.
BS-ritgerð Tönju nefnist Á ferðalagi um samfélagsmiðla. Leiðbeinandi var Gunnar Þór Jóhannesson prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin fjallaði um hvernig samfélagsmiðlar móti ferðalög svonefndra ferðaáhrifavalda og áhrif samfélagsmiðla á ferðahegðun og sjálfsmynd þessa hóps í tengslum við ljósmyndun.
Rannsóknin var tvíþætt og byggði á viðtölum við íslenska ferðaáhrifavalda sem hafa skapað sér starfsferil á Instagram og eiga þar stóra fylgjendahópa. Auk þess var gerð innihaldsgreining á myndum áhrifavaldanna á Instagram. Rannsóknin leiddi í ljós að áhersla á ljósmyndun og deilingu efnis væru hvatar fyrir ferðalög og settu svip á það hvernig áhrifavaldarnir ferðuðust. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að áhrifavaldarnir áttu ekki aðeins stóran þátt í því að viðhalda áhorfinu heldur sé val og upplifun þeirra á áfangastöðum undir sterkum áhrifum af því myndefni sem þegar er að finna á samfélagsmiðlinum. Á grunni niðurstaðna ályktar Tanja að áhrifavaldar hafi sem ferðamenn sterkari áhrif á samfélagsmiðlum vegna fylgjendahópa sinna og geti átt þátt í dreifingu ferðamanna um Ísland og mótað iðkun þeirra á áfangastöðum.
MS-ritgerð Michaëls nefnist Viðhorf almennings til miðhálendisþjóðgarðs – skilyrði fyrir samstöðu meðal notenda (e. Public Views on the Central Highland National Park: Conditions for a consensus among recreational users). Leiðbeinendur hans voru Rannveig Ólafsdóttir prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Þorvarður Árnason forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði. Í ritgerðinni voru könnuð viðhorf almennings til miðhálendisþjóðgarðs og til ágreiningsmála vegna nýtingar á landsvæðinu sem þjóðgarðurinn myndi ná yfir. Í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði höfundur netkönnun meðal Íslendinga til að meta afstöðu þeirra til miðhálendis Íslands og mála tengdum náttúru Íslands og ferðamennsku. Niðurstöðurnar leiddu í ljós mikinn stuðning meðal almennings við fyrirhugaðan þjóðgarð en að sama skapi skiptar skoðanir á uppbyggingu vega og þjónustu á svæðinu. Þeir sem studdu stofnun þjóðgarðs lögðu mikla áherslu á að með þjóðgarði verði auðveldara að stýra uppbyggingu ferðaþjónustu á miðhálendinu á meðan þeir sem voru á móti höfðu áhyggjur af dvínandi tækifærum almennings til útivistar á svæðinu, rekstrakostnaði þjóðgarðs og miðstýringu. Út frá niðurstöðunum er ályktað að til að tryggja breiðari samstöðu meðal notenda svæðisins þurfi að stýra ferðamennsku og varðveita fjölbreytt tækifæri til útivistar. Rannsóknin dregur fram mikilvægi samráðs við alla hagsmunaaðila til að takast betur á við væntingar þeirra og tryggja breiðari sátt meðal notenda svæðisins um ókomna framtíð.
María Guðmundsdóttir fv. fræðslustjóri SAF, Sigríður Sigurðardóttir lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF sátu í dómnefndinni.
Tilnefningar til lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2021
• An assessment of whale watching impacts on the behaviour of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in Skjálfandi Bay, Iceland
Höfundur: Hanna Vatcher, MS-gráða í haf – og strandsvæðastjórnun, Háskólasetri Vestfjarða (viðskipta- og raunvísindasvið, Háskólinn á Akureyri)
Leiðbeinandi: Marianne Rasmussen
• Á ferðalagi um samfélagsmiðla
Höfundur: Tanja Sól Valdimarsdóttir BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Gunnar Þór Jóhannesson
• Covid-19 as an opportunity for more sustainable tourism – A realistic expectation?
Höfundur: Lena Hinze, MS-gráða í stjórnun í ferðaþjónustu, viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík
Leiðbeinandi: Marina Candi
• Environmental compliance and practices of cruise ships in Iceland: an exploratory case study - port of Ísafjörður
Höfundur: Sheng Ing-Wang, MS-gráða í haf – og strandsvæðastjórnun, Háskólasetri Vestfjarða (viðskipta- og raunvísindasvið, Háskólinn á Akureyri)
Leiðbeinandi: Catherine Chambers
• „Fyrir það fyrsta, þá er þetta rosalega frábært markmið, en rosa stórt“: Rannsókn á framtíðarsýn Stjórnarráðsins innan íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030
Höfundar: Andrea Björk Olgeirsdóttir og Svana Þorgeirsdóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Rósbjörg Jónsdóttir og Ásdís Aðalbjörg Arnalds
• Íshellaferðir út frá upplifunarhagkerfi Pine og Gilmore: Áhrif upplifunar á ánægju
Höfundur: Nejra Mesetovic, MS-gráða í markaðsfræði, viðskiptadeild Háskólans á Bifröst
Leiðbeinandi: Brynjar Þór Þorsteinsson
• Public Views on the Central Highland National Park: Conditions for a consensus among recreational users
Höfundur: Michaël Bishop, MS-gráða í land- og ferðamálafræði, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Leiðbeinendur: Rannveig Ólafsdóttir og Þorvarður Árnason
• Visitors in the land: values, opinions and perceptions of visitors to inform management at seal watching spots in Northwestern Iceland
Höfundur: Cecile Marie Chauvat, MS-gráða í haf – og strandsvæðastjórnun, Háskólasetri Vestfjarða (viðskipta- og raunvísindasvið, Háskólinn á Akureyri)
Leiðbeinendur: Jessica Aquino og Sandra Granquist
• Whale-Watchers' Perceptions of Whaling in Iceland
Höfundur: Erin Henderson, MS-gráða í haf – og strandsvæðastjórnun, Háskólasetri Vestfjarða (viðskipta- og raunvísindasvið, Háskólinn á Akureyri)
Leiðbeinandi: Chiara Bertulli