UPLIFT: Tækifæri í bókmennta- og kvikmyndaferðaþjónustu leyst úr læðingi

RMF leiðir nýtt evrópskt samstarfsverkefni fyrir hönd Háskólans á Akureyri en verkefnið er styrkt af Erasmus+ styrkjaáætluninni til tveggja ára (2024-2026). Verkefnið nefnist UPLIFT (e. Unlocking the potential of immersive literary and film tourism in Europe) og koma samstarfsaðilar frá sex fyrirtækjum og menntastofnunum á Íslandi, Danmörku, Litháen, Írlandi og Slóveníu.

Markmið verkefnisins er að leggja áherslu á stafrænar lausnir og nýsköpun innan bókmennta- og kvikmyndaferðaþjónustu í Evrópu og auka færni ferðaþjónustuaðila sem vilja nýta sér tækninýjungar á borð við VR/AR/AI í sínu starfi. Í því skyni munu samstarfsaðilar UPLIFT útbúa kennsluefni og halda vinnustofur. Með því vill UPLIFT brúa bilið milli fræðilegrar þekkingar og notkunar þegar kemur að nýtingu sýndarveruleika, gervigreindar og viðbótarveruleika innan bókmennta- og kvikmyndaferðaþjónustu.

Verkefnið hófst formlega 1. október síðastliðinn og hefur farið vel af stað. Fyrsti verkefnafundur samstarfsaðila var haldinn á netinu í byrjun mánaðarins þar sem hópurinn tók fyrstu skrefin í þessu spennandi nýja verkefni.

Á mynd: Vera Vilhjálmsdóttir (RMF), Tanja A. Kokol (VSGT), Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (RMF), Monika Grineviciute (Vilnius Tech), Kathryn O'Brien (EUEI), Lina Peciure (Vilnius Tech), Lauga Magan (Feltech), Noelle O'Connor (TUS) og Vilma Puriene (Vilnius Tech).

 

11. október stóð Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi fyrir upphafsfundi fyrir verkefnastjóra nýrra evrópuverkefna á Hilton Nordica. Vera Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur RMF tók þátt í fundinum fyrir hönd RMF og Háskólans á Akureyri, ásamt því að halda stutt erindi um reynslu RMF af því að leiða slík verkefni.

Á mynd: Styrkhafar í starfsmenntahluta. Vera Vilhjálmsdóttir (RMF), Guðríður Helgadóttir og Ágústa Erlingsdóttir (Fjölbrautaskóla Suðurlands), Arnþrúður Dagsdóttir (Þekkingarnets Þingeyinga) ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Margréti verkefnisstjóra starfsmenntahluta. Mynd fengin frá Landskrifstofu.