Útivist í náttúrunni losar streitu og bætir líðan
Vísindatímartið Health & Place birti á dögunum grein um niðurstöður rannsóknar sem sýndu að útivist í íslenskri náttúru bætir andlega líðan einstaklinga og hefur streitulosandi áhrif. Þetta er í fyrsta sinn sem áhrif útivistar í íslenskri náttúru eru rannsökuð með tilliti til heilsu og vellíðunar einstaklinga samanborið við aðrar þekkar frístundaathafnir í manngerðu umhverfi.
Rannsóknin, sem var þverfagleg, leiddi saman og byggir á fyrri niðurstöðum úr mannvistarlandfræði, umhverfissálfræði og lífeðlisfræði en þær greinar hafa allar rannsakað samspil umhverfis og heilsu og líðan hver á sinn hátt.
Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem gerð er tilraun til að kanna þátt hugarfars og upplifunar einstaklinga í frístundaathöfnum samhliða lífeðlisfræðilegum breytingum. Niðurstöðurnar voru náttúrunni í hag. Streitulosun átti sér stað þegar einstaklingar voru ánægðir með aðstæður sínar. Höfundar greinarinnar draga þá ályktun að ástæðan fyrir streitulosunaráhrifum náttúrunnar séu þau umskipti sem verða í huga og umhverfi einstaklingsins við það að fara úr daglegu amstri og úti í náttúruna. Upplifun á náttúrunni er lituð af rómantík og hugmyndum um villta náttúru (e. wilderness) sem gera menn opna fyrir því að sjá fegurð í aðstæðum sínum svo framarlega sem umhverfið og aðstæður á vettvangi standi undir væntingum. Þakklæti, aðdáun og virðing ól af sér mestu stresslosunina.
Rannsóknin er hluti af verkefninu Breathing Spaces: Relating to Nature in the Everyday and its Connections to Health and Wellbeing sem Gunnþóra Ólafsdóttir, sérfræðingur RMF stendur fyrir. Þennan hluta verkefnisins vann hún með Paul Cloke, mannvistarlandfræðingi hjá Háskólanum í Exeter og Claus Vögele sálfræðingi hjá Háskólanum í Lúxemborg. Niðurstöðurnar voru kynntar á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands laugardaginn 11. mars s.l. á málstofunni Þverfaglegar nálganir á landslag.
Greinina má nálgast hér.