Verkefnafundur á Akureyri um leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu
Rannsóknamiðstöð ferðamála leiðir og er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu We Lead sem miðar að því að efla leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu. Samstarfsaðilar We Lead koma frá fimm fyrirtækjum og menntastofnunum á Íslandi, Danmörku, Írlandi og Spáni.
Í lok apríl var haldinn tveggja daga verkefnafundur þar sem samstarfsaðilar We Lead komu saman á Akureyri og funduðu um stöðu og næstu skref verkefnisins ásamt því að fræðast um íslenska ferðaþjónustu.
Inn á fundin kom Arnheiður Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Norðurlands sem gaf góða kynningu á starfsemi stofnunarinnar og sinnar eigin reynslu af því að vera kvennleiðtogi innan ferðaþjónustunnar á Íslandi. Auk þess sem Embla Eir Oddsdóttir frá Norðurslóðaneti Íslands kom og sagði frá spennandi verkefni sem þau unnu um jafnrétti á norðurslóðum. Þar að auki var farið í Skógarböðin, Jólahúsið, göngu um miðbæ Akureyrar með Walk & Visit og í heimsókn á Hælið, þar sem María Pálsdóttir stofnandi Hælisins tók á móti hópnum, sagði frá tilurð þess og veitti leiðsögn um sýningarrýmin.
We Lead verkefnið miðar að því að skapa starfsumhverfi innan ferðaþjónustunnar sem stuðlar að jafnræði, jöfnuði og bregst við þörfum samfélagsins, ekki síst þegar kemur að helstu áskorun samtímans sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru. Afurðir verkefnisins verða námsefni ætlað skólum, símenntunarstofnunum og öðrum hagaðilum til að efla konur til framþróunar í starfi innan ferðaþjónustunnar.
Námsefnið verður frítt og aðgengilegt öllum inni á heimasíðu We Lead. Verkefnið er til tveggja ára og því líkur í september 2024.